Sif hefur verið búsett í Bretlandi í næstum tvo áratugi.

„Ég fór þangað í framhaldsnám eftir að ég útskrifaðist úr sagnfræði við Háskóla Íslands. Maðurinn minn fór með mér og við kunnum svo vel við okkur í Bretlandi að við erum ekki enn flutt heim.“


Taugarnar liggja enn hingað heim þó Sif hafi bráðum búið jafnlengi í Bretlandi og hún bjó á Íslandi.

„Maður er alltaf einhvern veginn gegnheill Íslendingur. Það fer samt svo vel um mig í ys og þys stórborgarinnar.“

Sif segir ástæðu þess að hún kunni svo vel við sig í útlöndum líklega liggja í eðlinu.

„Það er oft í eðli rithöfunda að vilja standa fyrir utan og horfa inn. Úr fjarlægð sér maður betur heildarmyndina, en í miðri hringiðunni sér maður fátt í fókus annað en kannski eigin nafla. Nú hljóma ég eins og einhver gluggagægir,“ segir hún og hlær.

„Það er oft í eðli rithöfunda að vilja standa fyrir utan og horfa inn.

„En rithöfundar eru hálfgerðir njósnarar. James Bond með augun á mannlegu eðli – og auðvitað einn hristan en ekki hrærðan í greipunum. Það sem ég saknaði mest á tímum Covid voru ekki knús frá vinum heldur að mega ekki standa nógu nálægt ókunnugum til að geta hlustað á samtöl mér óviðkomandi.“


Barnið fæddist óvænt heima


Sif og eiginmaður hennar eiga þrú börn, átta ára, fimm ára og það yngsta sextán mánaða. Segir hún þau ganga undir heitunum kostnaðarliður eitt, tvö og þrjú. Börnunum fjölgaði um eitt í heimsfaraldrinum, í miðju útgöngubanni og lá nýjasta fjölskyldumeðliminum augljóslega töluvert á í heiminn.


„Sú saga fór eins og eldur um sinu um hverfið sem við búum í, því þótt London sé stórborg er hvert hverfi eins og lítið þorp sem telur kaupmanninn á horninu, pósthús, slátrara og slúðurbera sem tryggja að fréttir ferðast jafnléttilega milli húsa og lauf með vindi,“ útskýrir Sif og heldur áfram:

„Ég hafði ætlað að eiga grislinginn á spítala með aðstoð læknavísindanna og alls þess dóps sem stæði til boða. Barnið kom hins vegar í heiminn án nokkurs fyrirvara og það var tölvunarfræðingur sem tók á móti því,“ segir Sif og á þá við eiginmann sinn.

„Barnið kom hins vegar í heiminn án nokkurs fyrirvara og það var tölvunarfræðingur sem tók á móti því."

„Tæknibúnaðurinn var handklæði og skóreim úr skónum mínum, rifjar hún upp en segir þá ákvörðun hafa verið tölvunarfræðingsins og hún sé enn bitur yfir henni. „Eins nutum við dyggrar leiðsagnar konu á símanum hjá bresku neyðarlínunn.“

Drengurinn var augljóslega klár í slaginn enda mættur þegar sjúkraliðar komu á svæðið á sjúkrabíl. „Einn þeirra fór að gráta af létti yfir að útkallið var fæðing en ekki enn annað Covid-útkall.“


Vinirnir verða fjölskylda


Aðspurð hvernig sé að ala upp börn í stórborginni þar sem vegalengdir geta verið langar og umhverfið á tíðum ekki mjög barnvænt segir Sif þau vissulega búa við skert frelsi.


„Hér labba börn á þessum aldri ekki ein í skólann og leika sér ekki úti með vinum sínum eftir skóla. Hvert sem þau fara, förum við foreldarnir líka. Á móti kemur að börnin njóta góðs af fjölbreyttum reynsluheimi stórborgarinnar. Þau eiga vini af ólíku þjóðerni sem aðhyllast ólíka siði og ólík trúarbrögð.

Fyrir vikið öðlast þau ákveðna víðsýni. Þau kynnast siðum sem okkur eru framandi og vita hvernig á að fagna hátíðum eins og Eid al-Fitr og Diwali,“ útskýrir Sif og með léttu gúggli kemst blaðamaður að því að sú fyrri er íslömsk hátíð og sú síðari hátíð ljóssins sem fagnað er af Hindúum.

„Hér labba börn á þessum aldri ekki ein í skólann og leika sér ekki úti með vinum sínum eftir skóla. "

„Stórborgin hefur það orð á sér að vera stór, ópersónuleg og að þar séu allir stöðugt á þönum. En það er fjarri sanni,“ segir Sif aðspurð hvort fjölskyldan verji löngum tímum daglega í að komast á milli staða og þar fram eftir götunum.

„Hvert hverfi er eins og lítið þorp. Maður fer varla út úr húsi án þess að hitta einhvern sem maður þekkir. Fólk býður hvert öðru góðan daginn á götum úti.

Við eigum ekki bíl því allt sem við þörfnumst – verslanir, líkamsrækt, læknisþjónusta – er í göngufjarlægð. Næstum allir eru aðfluttir og eru ekki með öryggisnet í næsta húsi á formi fjölskyldu. Vinir manns í London verða því dálítið eins og fjölskyldan,“ segir hún og bendir á að samtakamáttur nágranna hafi sýnt sig þegar heimsfaraldur stóð sem hæst.

„Allir hjálpuðust að. Þeir sem lentu í sóttkví gátu treyst á nágranna um að redda sér mat og skjótast í sendiferðir fyrir sig.“


Ómerkilegt mannkynið


Sif lýsir sjálfri sér sem fréttafíkli og aðspurð út í áhugamálið sem á hug hennar allan svarar hún að tilgangsleysi lífsins drífi sig áfram.

„Ég er trúleysingi. Ég trúi hvorki á æðri máttarvöld né á sérstakan tilgang lífsins. Tilvist mannsins skiptir litlu máli fyrir nokkurn annan en hann sjálfan – jörðin er aðeins rykögn í alheimi sem kærir sig kollóttan,“ segir hún með sannfæringu.

„Fánýtið finnst mér þó alls ekki niðurdrepandi. Það er einmitt vegna þess hversu nauðaómerkilegt mannkynið er sem gerir það svo undravert. Að hugsa sér þá löngu og ótrúlegu röð tilviljana sem olli því að maðurinn varð til í víðáttu alheimsins og býsn tímans.“

Og það er í þessu dásamlega tilgangsleysi sem Sif finnur tilgang sinn. „Bandaríski heimspekingurinn og trúleysinginn Daniel Dennett, segir lykilinn að hamingjunni felast í því að „finna eitthvað merkilegra en maður sjálfur og helga því líf sitt.“

Þetta „eitthvað“ í mínu tilfelli eru fréttir, fróðleikur og frásagnartæknin sem notuð er til að miðla hvoru tveggja. Ég er heltekin af fréttum. Ég er stöðugt með alla anga úti að leita að fróðleiksmolum og nýjum frásagnaraðferðum til að miðla þeim með hætti sem fær hjartað til að slá hraðar.“

„Ég er trúleysingi. Ég trúi hvorki á æðri máttarvöld né á sérstakan tilgang lífsins."

Nóg er af hversdagsleikanum


„Það má segja að tilgangur minn í lífinu, það sem kemur mér fram úr rúminu á morgnana, sé að reyna að skapa lesendum Fréttablaðsins nokkurra mínútna náðarstund með sjálfum sér og kaffibolla á laugardagsmorgni,“ segir Sif sem skrifað hefur vikulega pistla í Fréttablaðið og er orðin fastur punktur í tilveru margra lesenda.

„Þegar maður hefur fundið tilganginn er fátt sem stendur í vegi fyrir að maður vinni að markmiðinu; ekki rellið í börnunum, uppvaskið eða sú staðreynd að það hefur ekki verið ryksugað í viku.

Ég heyri stundum frá lesendum sem eiga sér ritúal í kringum lesturinn á pistlunum; þeir koma sér fyrir í þægilegum stól með blaðið, rétta bollann, uppáhalds vínarbrauðið og byrja svo að lesa.

Fátt gleður mig meira en að vita til þess að mér hafi tekist að veita einhverjum stundarfrið frá hversdagsleikanum. Nóg er af honum.“

Sif skrifar bækur innblásnar af því sem er að gerast í heiminum hverju sinni og er sú nýjasta engin undantekning. Mynd/Aðsend

Fréttafíkillinn Sif hlýtur að eiga sín uppáhalds hlaðvörp og leikur blaðamanni forvitni á að vita hvað hún hlustar á sér til fróðleiks og skemmtunar.

„Ó, já. Ég hef alltaf verið mikill útvarpsfíkill og sótt í talað mál. Sem unglingur vissi ég fátt betra en að sofna á sunnudagskvöldi við Frjálsar hendur Illuga Jökulssonar á Rás 1. Þegar ég flutti til Bretlands varð ég strax háð breska ríkisútvarpinu. Stundum óskaði ég þess að ég gæti grætt útvarpsstöðina BBC Radio 4 í heilann í mér og hlustað á hana allan sólarhringinn í beinni, segir hún í léttum tón.

„Ég hlusta mikið á hlaðvörp á borð við The Daily frá The New York Times, Today in Focus frá The Guardian og Stories of Our Times frá The Times.“

Veröldin er grá


Bók Sifjar, Banvæn snjókorn sem kom út í Bretlandi fyrir tveimur árum kom loks út á íslensku í vikunni.

„Banvæn snjókorn er í senn norræn glæpasaga – „Nordic noir“ eins og það kallast hér í Bretlandi – og ungmennabók. Eins og svo oft með norrænu glæpasöguna er um að ræða samfélagsádeilu, sjónum er beint að einhverju sem miður fer í samtímanum. Ég er til dæmis að skoða hættur internetsins og þau áhrif sem það hefur á sjálfsímynd, samskipti fólks, viðskipti, lýðræði og samfélagið allt.“

„Ég er til dæmis að skoða hættur internetsins og þau áhrif sem það hefur á sjálfsímynd, samskipti fólks, viðskipti, lýðræði og samfélagið allt.“

Bókin segir frá ungri, hálf-íslenskri konu sem ólst upp í London en flyst til Íslands þegar móðir hennar fellur frá. Hún fær vinnu sem blaðamaður á dagblaði sem pabbi hennar ritstýrir.

„Ég vann á Morgunblaðinu í gamla daga og er ritstjórnin innblásin af þeirri reynslu. Blaðakonan unga fær það hlutverk að skoða mál samfélagsmiðlastjörnu sem handtekin er fyrir morð. Í ljós kemur að hlutirnir eru flóknari en þeir virðast.“

Sif bendir á að þannig sé tilveran oft, að við látum sem hlutirnir séu svartir eða hvítir, algóðir eða slæmir. „En veröldin er grá.“

Banvæn snjókorn er innblásin af tveimur fréttatengdum atburðum sem sýna fram á hvað hlutirnir eru ekki alltaf klipptir og skornir: Annars vegar vafasömum starfsháttum samfélagsmiðla og hins vegar MeToo byltingunni og því ekki úr vegi að spyrja Sif út í hennar afstöðu.


MeToo og samfélagsmiðla


„Það er óhrekjanleg staðreynd að samfélagsmiðlar valda skaða; þeir eru skaðlegir andlegri heilsu, margir telja þá hættulega samfélagsumræðu og jafnvel lýðræðinu. En ef ekki hefði verið fyrir samfélagsmiðla hefði MeToo byltingin aldrei komist á skrið. Samfélagsmiðlar geta verið breytingaafl. Þá er hægt að nota til góðs. En þeir geta líka verið niðurrifsafl,“ segir hún.

„Samfélagsmiðlar geta verið breytingaafl. Þá er hægt að nota til góðs. En þeir geta líka verið niðurrifsafl,“

Bækur Sifjar endurspegla áhuga höfundarins á fréttatengdum málefnum og eru þannig innblásnar af því sem er að gerast í heiminum hverju sinni.

„En þótt ég sé með fréttir á heilanum finnst mér oft felast meiri sannleikur í skáldskapnum en staðreyndum. Skáldskapurinn gerir okkur kleift að sjá stóru myndina sem týnist gjarnan í öllu því fréttafargani sem herjar á okkur.“

Sif líkir því að skrifa skáldskap við að prjóna.

„Raunveruleikinn er óreiða, samflæktur garnhnykill. Að greiða úr flækjunni sem mannleg tilvist er og búa til úr henni sögu dregur ekki úr sannleiksgildi efnisins. Líf okkar eru samflæktur garnhnykill; þótt prjónuð sé úr þeim peysa er enn um að ræða garn.“

Sif starfar bæði hér á landi og í Bretlandi og skrifar bæði á íslensku og ensku. „Það að vinna með tvö tungumál getur valdið því að maður verði dálítið ruglaður í ríminu. Stundum opna ég munninn og man ekki hvort ég var að tala íslensku eða ensku.“


Allir með umboðsmann


Banvæn snjókorn er önnur bókin sem hún skrifar á ensku og segist hún nú berjast við að leggja lokahönd á þá þriðju.

„Heimsfaraldurinn, útgöngubönn og heimaskóli hægðu á fæðingu þeirrar bókar.“

Enskar bækur Sifjar eru gefnar út af stærsta bókaforlagi Bretlands, Hachette.

„Útgáfubransinn í Bretlandi er gjörólíkur bransanum hér heima. Breskir útgefendur eru álíka aðgengilegir og sjálf drottningin. Þeir forðast óbreytta rithöfunda eins og heitan eldinn og þeir líta ekki við bókahandritum nema þau berist þeim í gegnum umboðsmenn.

Hlutverk umboðsmannsins er mjög umfangsmikið. Það getur verið erfitt að verða sér úti um umboðsmann og getur tekið marga mörg ár. Kosturinn við að vera með umboðsmann er sá að þá er maður laus undan praktískum atriðum eins og samningaviðræðum og slíku. Það er því meiri tími til að einbeita sér að skrifum sem er eitthvað sem allir höfundar fagna.“

„Breskir útgefendur eru álíka aðgengilegir og sjálf drottningin."

Þýðendur eru ekki vél


Bókin hefur nú þegar verið þýdd bæði á frönsku og þýsku og er Ísland því fjórði áfangastaður hennar þótt höfundurinn sé íslenskur sem telst nokkuð sérstakt. Sif hafði alltaf séð fyrir sér að þýða hana sjálf en þegar á hólminn var komið gafst ekki tími til þess.

„Forlagið, útgefandinn minn, fékk því frábæran þýðanda í verkið, verðlaunaþýðandann Höllu Sverrisdóttur,“ útskýrir hún og bætir við að ferlið hafi verið skrítið fyrir bæði höfund og þýðanda.

„Hún var að þýða verk á móðurmál höfundar. Þegar ég fékk þýðinguna svo í hendur áttaði ég mig á einu. Skáldsögur eru eingetnar. Þær eiga eitt foreldri sem er höfundurinn.

Þýðingar eiga hins vegar tvo foreldra. Bókin var ekki lengur bara bókin mín heldur var hún sameiginlegt afkvæmi okkar Höllu,“ útskýrir hún og bætir við að þýðendum sé að hennar mati ekki gert nægilega hátt undir höfði.

„Á litlu málsvæði eins og því íslenska eru þýðingar sérstaklega mikilvægar. Þýðendur eru ekki vél, við þýðum ekki bækur í gegnum Google Translate. Góður þýðandi þýðir verk og gæðir það sál á því tungumáli sem hann fæst við.“


Dauðinn hefur tilgang


Eins og fyrr segir er Sif á bólakafi í sinni þriðju bók sem hún skrifar á ensku, aftur á móti segist hún alltaf vera með mörg járn í eldinum og á teikniborðinu er jafnframt íslenskt verk.

„Ég er eins og hákarl – ef ég hætti að synda sekk ég til botns. Á hverjum degi græt ég að það skuli ekki vera fleiri mínútur í sólarhringnum.“

Og þá færist umræðan aftur að tilgangsleysi lífsins.

„Þótt lífið hafi engan tilgang finnst mér dauðinn hafa hann. Bandaríski rithöfundurinn og nóbelsverðlaunahafinn Saul Bellow sagði að „dauðinn er dökka undirlagið sem spegill þarf að hafa til að maður sjái eitthvað í honum.“

„Þótt lífið hafi engan tilgang finnst mér dauðinn hafa hann."

Lífið er takmörkuð auðlind og það er þessi króníski tímaskortur sem gerir lífið aðkallandi. Ef við hefðum óendanlega mikinn tíma gætum við gert allt, en allt mætti líka bíða. Hvers vegna að fara í ferðalag í dag – eða byrja á nýrri bók, læra nýtt tungumál, kynnast nýju fólki – ef það má bíða til morguns?“

Við endum millilandasamtalið á þessum heimspekilegu nótum enda kostnaðarliðir eitt og tvö farnir að rífast um hvort þeirra eigi að halda á sjónvarpsfjarstýringunni á meðan þau horfa á Netflix. n