Forsvarsmenn Réttlætis, stuðningshóps Vöggustofubarna, funduðu með Degi B. Eggertssyni. borgarstjóra, og Þorsteini Gunnarssyni, borgarlögmanni, í dag varðandi framvindu rannsóknar á starfsemi vöggustofa í Reykjavíkurborg.
Hrafn Jökulsson kveðst vera ánægður með útkomu fundarins sem hann segir hafa verið langan og ítarlegan.
„Ég er mjög sáttur með þennan fund, borgarstjóri hlustaði mjög vel og hann hefur tekið þetta mál alvarlega frá upphafi. Þetta var gagnlegur fundur. Ég trúi náttúrlega alltaf á að hið góða sigri að lokum og ég held að það eigi við í þessu máli.“
Borgarstjóri allur að vilja gerður
Hrafn og kollegar hans, þeir Árni H. Kristjánsson, Tómas V. Albertsson og Viðar Eggertsson, hafa verið gagnrýnir á framgöngu borgaryfirvalda í málinu og birtu þeir félagar til að mynda opið bréf í Fréttablaðinu í mars þar sem þeir sögðu markmið borgarinnar fyrir rannsóknina vera illa skilgreind og ómarkviss.
„Við höfðum miklar áhyggjur af því að það væri ekki nógu skýrt hvað nefndin ætti í raun og veru að fara í saumana á. Ekki bara starfshætti vöggustofanna heldur leggjum við líka mikla áherslu á að það verði rannsakað hvað varð um vöggustofubörnin, þessi 1200-1500 börn sem voru á vöggustofunum, hvernig þeim reiddi af í lífinu,“ segir Hrafn.
Finnst þér borgaryfirvöld vera að taka mark á ykkar athugasemdum?
„Mér heyrist það og ég veit að borgarstjóri er allur að vilja gerður og það er þverpólitísk samstaða í málinu en við viljum að fókusinn verði skýrari um hvað þessi nefnd á að rannsaka, að það sé alveg á tæru að það verði velt við hverjum steini og það verði rannsakað hvað varð um vöggustofubörnin hvert og eitt.“

Á annað hundrað fyrirspurnir borist Borgarskjalasafni
Að sögn Hrafns er mikill áhugi um málið hjá fyrrum vöggustofubörnum og aðstandendum þeirra og hefur Borgarskjalasafni þegar borist á annað hundrað fyrirspurnir, frá því Hrafn og fimmmenningarnir hófu vegferð sína sumarið 2021. Spurður um hver næstu skref verði í málinu segir Hrafn:
„Nú er málið hjá þinginu og við þökkum þinginu fyrir að hafa komið þessu á dagskrá sem síðasta mál fyrir páskafrí. Þingið þarf að samþykkja það frumvarp og við vonumst til þess að það verði hægt að hafa áhrif á orðalag í því frumvarpi til þess að okkar fókus og okkar áherslur verði alveg skýr og þá held ég að allir verði ánægðir.“
Þverpólitísk samstaða á Alþingi
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, lagði fram frumvarp síðastliðinn föstudag um aðkomu ríkisins að málinu og veitingu nauðsynlegra lagaheimilda fyrir rannsóknina. Forsætisráðherra sagðist vænta þess að frumvarpið myndi njóta velvildar allra þingflokka og spurður um hvort hann telji að svo verði segir Hrafn:
„Ég er ekki í nokkrum vafa um það, þetta er mál sem allir sem við höfum rætt við erum sammála að verði að upplýsa og rannsaka og ég held að jafnvel Íslendingum takist ekki að blanda flokkapólitík inn í þetta.“
Upplifir þú að einhverjir aðilar í pólitíkinni séu að reyna að tefja framgöngu málsins?
„Nei, ég finn enga slíka sökudólga og í rauninni getum við fagnað því að á tíu mánuðum skulum við hafa náð þeim árangri að málið er komið til kasta Alþingis og að Reykjavíkurborg sé búin að samþykkja að taka frá 80 milljónir og skipa rannsóknarnefnd í þetta. Þannig það eru þessi fínni blæbrigði í rannsókninni sem við viljum skerpa á en ég trúi því ekki að það sé nokkur maður sem vísvitandi standi í vegi fyrir því að þessi langþráða og mikilvæga rannsókn fari fram,“ segir Hrafn að lokum.