Frjáls­lyndis­flokkurinn fór naum­lega með sigur af hólmi í þing­kosningum í Kanada í gær og hafa næg sæti til að leiða minni­hluta­stjórn en þetta kemur fram í frétt Guar­dian um málið. Leið­togi Frjáls­lyndis­flokksins, Justin Tru­deau, hefur því unnið sér inn annað kjör­tíma­bil sem for­sætis­ráð­herra en flokkurinn þarf nú að treysta á stuðning annarra flokka til að ná fram meiri­hluta­stjórn.

Rætt hafði verið um kosningarnar sem eins konar þjóðar­at­kvæðis­greiðslu um Tru­deau og eftir kosningarnar sagði for­sætis­ráð­herrann að kanadískir borgarar hefðu sent skýr skila­boð um stuðning. „Óháð því hvernig þú kaust þá mun teymi okkar vinna hörðum höndum fyrir alla íbúa Kanada,“ sagði Tru­deau í ræðu sinni til stuðnings­manna eftir úr­slitin.

Þurfa þrettán sæti fyrir meiri­hluta

Tru­deau tók fyrst við em­bætti for­sætis­ráð­herra árið 2015 en hefur síðan þá sætt mikilli gagn­rýni. For­sætis­ráð­herrann, sem á­vallt hefur gefið sig út fyrir að vera mikill tals­maður jafn­réttis og fjöl­breyti­leika, varð fyrir tölu­verðu bak­slagi í ár þar sem hann hefur verið sakaður um spillingu og kyn­þátta­hatur. Þá hafði hann einnig verið gagn­rýndur fyrir að standa ekki við kosninga­lof­orð sín.

Fjöldi sæta á hvern flokk.
Mynd/Guardian

Frjáls­lyndis­flokkurinn missir tuttugu sæti, fer úr 177 niður í 157 sæti, á meðan and­stæðingar þeirra í Í­halds­flokknum fara upp um 26 sæti, úr 95 upp í 121. Frjáls­lyndis­flokkurinn þarf því þrettán sæti til þess að geta myndað meiri­hluta­stjórn. Þrátt fyrir að Frjáls­lyndis­flokkurinn hafi unnið fleiri sæti en and­stæðingarnir sínir í Í­halds­flokknum þá hlaut Í­halds­flokkurinn fleiri at­kvæði í heildina.