Ákæruvaldið leggur engan trúnað á erlend tengsl við Bitcoinmálið og segir gögn málsins sýna að þeir sem ákærðir eru í málinu hafi bæði skipulagt brotin vel og gengið langt í að reyna að hylja slóð sína og villa um fyrir lögreglunni.

Saga útlends huldumanns kom nokkuð brotakennt fram við skýrslur af ákærðu við aðalmeðferðina. 

Sindri Þór Stefánsson, sem hefur játað að hafa brotist inn í gagnaverið í Borgarnesi og átt aðild að þjófnaði úr gagnaveri Advania í Reykjanesbæ, greindi þannig frá að áhugi hefði vaknað hjá sér að hefja rafmyntargröft (e. bitcoin mining) eftir að hafa heyrt af slíkri starfsemi í Borgarnesi. Hann hefði sjálfur ekki haft fjárráð til að kosta slíkt en kynni að setja það upp og sjá um það enda tölvunarfræðingur að mennt og þekking hans á þessu sviði þó nokkur. Hann hefði haft samband við hugsanlegan fjárfesti; hinn erlenda aðila. Upp hefði komið sú hugmynd í samtölum þeirra að ræna frekar önnur bitcoinleitarver á landinu og taka þannig út samkeppnina í leiðinni.

Hafþór Logi Hlynsson, einn meðákærðu, greindi frá því að Sindri hefði sagt sér frá verkefni sem hann hefði fengið sem fæli í sér upplýsingastuld gegn greiðslu. Hafþór sagðist hafa samglaðst vini sínum sem þyrfti á peningunum að halda en fjárskortur hefði hamlað fyrirhuguðum búferlaflutningum Sindra með fjölskylduna til Spánar.

Sjálfur greindi Sindri frá því að um þjófnaðinn úr gagnaveri Advania væri að ræða og hefði honum verið lofað 50 þúsund evrum fyrir þjófnaðinn, um sjö milljónum króna. Skipuleggjandinn væri útlendingur og treysti Sindri sér ekki til að upplýsa hver hann væri enda hefði það miklu verri afleiðingar fyrir hann og hans fólk að afhjúpa hann en þegja.

Fleiri en Sindri nefndu útlendan huldumann. Þannig sagði öryggisvörður sem einnig er ákærður í málinu frá fundi sem fór fram í bíl og hefði sessunautur hans í aftursæti bílsins hótað honum líkamsmeiðingum gæfi hann ekki upplýsingar um öryggismál gagnaversins. Viðkomandi hefði verið útlendur, líklega frá Austur-Evrópu. Fbl_Megin: Sá sem ákærður er fyrir að hafa leitt innbrotsmennina og öryggisvörðinn saman greindi frá símtali við mann sem talaði með austur-evrópskum hreim og óskaði eftir að komast í samband við fyrrgreindan öryggisvörð. Fbl_Megin: Eini nafngreindi útlendingurinn sem kemur við sögu í málinu er Lithái sem bar vitni við aðalmeðferðina. Gamall sendiferðabíll sem notaður var við þjófnaðinn úr gagnaverinu í Borganesi fannst fyrir utan heimili hans í Kópavogi skömmu eftir innbrotið. Hann kvaðst hafa keypt bílinn upp úr miðjum desember eða skömmu eftir innbrotið. Bíllinn var hins vegar ekki skráður á hann en hann skýrði það svo að ekki hefði verið búið að ganga frá pappírunum þegar lögreglan lagði hald á bílinn. 

Lögreglumaður sem gaf skýrslu fyrir dómi sagði að ekki hefði fallið grunur á Litháann vegna þess að mynd hefði náðst af bílnum úr öryggismyndavél við gjaldskýlið í Hvalfjarðargöngum. Sá sem ekið hefði bílnum væri með húðflúr á vinstri handlegg eins og greina mátti þegar bílstjórinn rak handlegginn út um bílrúðu til að borga veggjaldið. Litháinn væri ekki með húðflúr á umræddum útlim og hefðu spjótin beinst að Viktori Inga Jónassyni enda væri hann flúraður á umræddum stað og að auki bæri hann úr með leðuról líkt og sjá mætti á myndinni.
Við skýrslutöku af Litháanum var hann hins vegar spurður hvort hann væri með húðflúr á framhandlegg vinstri handar og játti hann því og sýndi dóminum flúrið.

---

Öryggisverðir hjálpuðu innbrotsmönnum og sofnuðu á vaktinni

Tveir starfsmenn Öryggismiðstöðvarinnar koma töluvert við sögu í innbrotinu í gagnaver Advania í Reykjanesbæ en í ljós hefur komið að nokkur brestur virðist hafa verið á öryggisgæslu við þau gagnaver sem brotist var inn í. 

Ívar Gylfason er ákærður fyrir að hafa aðstoðað innbrotsmenn með því að veita upplýsingar um öryggisgæslu við gagnaverið, hafa látið í té öryggiskóða til að komast inn sem og fatnað merktan Öryggismiðstöðinni.
Sindri bar á mánudaginn að Ívar hefði haft samband við sig að fyrra bragði til að láta hann hafa teikningu af gagnaverinu. Sindri Þór sagðist telja að maðurinn sem fékk hann til verksins hefði átt í samskiptum við öryggisvörðinn.
Matthías Jón segist hafa fengið öryggiskóða frá Ívari og jakka merktan Öryggismiðstöðinni sem hann klæddist þegar brotið var framið.


Ívar neitaði hins vegar að hafa látið þá hafa fyrrgreindar upplýsingar og fatnað og segist aldrei hafa séð Matthías Jón fyrr en við aðalmeðferð málsins.
Hann sagðist hafa verið beðinn að veita upplýsingar gegn greiðslu. Hann hefði harðneitað en þá hefði honum og fjölskyldu hans verið hótað líkamsmeiðingum. Ákæruvaldið telur frásagnir Ívars af málavöxtum ekki trúverðugar og krefst þess að hann fái tveggja ára óskilorðsbundinn dóm.

Sá sem sofnaði á sófanum
Hinn öryggisvörðurinn var á vakt nóttina sem brotist var inn í gagnaverið. Hann fór veikur heim eftir eftirlitsferð að gagnaverinu klukkan tíu um kvöldið. Hann er ekki ákærður í málinu og gaf skýrslu sem vitni við aðalmeðferðina. Hann sagði að samkvæmt verklagsreglum ætti að fara fjórar eftirlitsferðir í gagnaverið á nóttu. Ekki voru hins vegar farnar fleiri ferðir þessa nótt en þá sem hann fór klukkan tíu umrætt kvöld. „Ég fór heim og á klósettið, og lagðist upp í sófa og ætlaði að hringja í yfirmann minn og láta vita en datt bara út. Vaknaði svo um hálf sjö og fattaði þá að ég hefði sofnað. Það voru engin útköll um nóttina bara þessar vaktferðir sem ég hafði ekki mætt í.“

Öryggisvörðurinn sagðist að­spurður hafa orðið var við mannaferðir fyrir utan heimili sitt vikurnar fyrir innbrotið. Hundurinn hans hefði urrað við glugga í stofunni á næturnar og í einu tilviki hefði svalahurð verið opin upp á gátt eins og einhver hefði gengið að húsinu og opnað þær en horfið frá þegar hundurinn fór að urra.


Hann var spurður hvort sérstakt verklag væri hjá fyrirtækinu sem væri virkjað ef utanaðkomandi aðilar föluðust eftir upplýsingum hjá þeim eða ef haft væri í hótunum við þá. Öryggisvörðurinn kannaðist ekki við það.