Í ljósi stað­festra rið­util­fella í Trölla­skaga­hólfi er hólfið nú skil­greint í heild sinni sem riðu­sýkt hólf næstu 20 árin frá síðasta stað­festa til­felli. Frá þessu er greint í til­kynningu frá Mat­væla­stofnun. Alls þurfti að lóga um á milli tvö og þrjú þúsund fjár í kjölfar þess að riða greindist á svæðinu.

Þar kemur fram að þegar riðu­veiki er stað­fest taka gildi ýmsar tak­markanir í sam­ræmi við reglu­gerð. Sam­kvæmt því er núna ó­heimilt að flytja sauð­fé til lífs milli hjarða eða flytja nokkuð á milli bæja innan hólfsins hvað sem getur borið smit­efni eins og hey, heyköggla og hálm, hús­dýra­á­burð, tún­þökur og gróður­mold nema með leyfi héraðs­dýra­læknis og að upp­fylltum á­kveðnum skil­yrðum.

Þá er einnig bannað sam­kvæmt reglu­gerðinni að flytja ull á milli bæja nema með leyfi héraðs­dýra­læknis og að flytja fjár­klippur, marka­tengur, lyfja­dælur og annan tækja­búnað, sem ó­hreinkast hefur af fé eða hugsan­lega smit­mengast á annan hátt á sýktu svæði, til nota í land­búnaði á ó­sýktu svæði, án vott­orðs frá héraðs­dýra­lækni um að full­nægjandi sótt­hreinsun hafi átt sér stað.

Þá segir að lokum að aðilar sem fara á milli sótt­varnar­svæða, sýktra svæða, á­hættu­svæða eða ó­sýktra svæða, með tækja­búnað til land­búnaðar­starfa skulu fá leyfi héraðs­dýra­læknis og vott­orð um að full­nægjandi sótt­hreinsun hafi átt sér stað. Þessi tæki og önnur sem ó­hreinkast af sauð­fé á sýktum svæðum skulu sótt­hreinsuð sam­kvæmt fyrir­mælum héraðs­dýra­læknis að lokinni notkun á hverjum stað eða jörð.

Alls eru nú því sex hólf á lista yfir sýkt varna­hólf á landinu. Það eru nú Vatns­nes­hólf, Húna- og Skaga­hólf, Trölla­skaga­hólf, Suður­fjarða­hólf, Hreppa- Skeiða- og Flóa­hólf og Biskups­tungna­hólf

Allir flutningar á fé milli hjarða innan þessara svæða og frá þeim (yfir varnar­línur) eru bannaðir sam­kvæmt reglu­gerð. Til að kaupa líf­fé inn á sýkt varnar­svæði þarf að sækja um leyfi til MAST

Nánar er hægt að kynna sér til­kynningu MAST hér.