Margir vagnar Strætó hafa verið troðfullir í dag á degi Menningarnætur. Mörgum var neitað um far og þurftu sumir að bíða í rúmlega klukkustund eftir vagni með plássi. Þá reyndist sérstaklega erfitt fyrir fjölskyldur með barnavagna að fá far í miðbæ Reykjavíkur.

„Það er búið að vera brjálað að gera í allan dag og það er ekkert lát á. Fólk er enn að streyma í bæinn,“ segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við Fréttablaðið. Guðmundur segir að það megi alltaf gera betur á einhverjum stöðum en miðað við umfangið á öllu höfuðborgarsvæðinu þá gengi þetta vel.

Strætó bætti við 14 aukavögnum um leið og ljóst var að allir vagnar væru að fyllast. Þá hefur verið stanslaus keyrsla á aukavögnunum frá hádegi í dag.

„Það er okkar tilfinning að það séu fleiri farþegar núna en síðustu ár, miðað við aukabíla sem eru sendir út,“ segir Guðmundur og bætir við að það verði fróðlegt að sjá hvernig tæming miðbæjarins muni ganga eftir flugeldasýninguna.

Akstur strætó í dag verður að mestu eins og aðra laugardaga.  Hefðbundið leiðakerfi verður gert óvirkt kl. 22:30 og áhersla lögð á að flytja gesti úr miðbænum frá Sæbraut við Höfða kl. 23:00 en Strætó hefur aldrei ekið þaðan áður. Síðustu ferðir verða kl. 01:00. 

Sérstök skutluþjónusta Strætó verður starfrækt fyrir þá sem vilja komast hratt og örugglega inn á mitt hátíðarsvæðið.
Skutlurnar munu ganga fram yfir miðnætti eða þar til miðborgin hefur verið tæmd .Skutlurnar aka frá Laugardalshöll með viðkomu á stoppistöðvum strætó í Borgartúni og Hlemmi og þaðan beinustu leið upp að Hallgrímskirkju.

Vagn númer 15 á leið frá Ártúni klukkan 15 í dag.
Strætó á leið úr Hafnarfirði
Troðfullt í strætisvagni á leið 5.