Í minnis­blaði sviðs­stjóra skóla- og tóm­stunda­sviðs Ísa­fjarðar­bæjar er lýst yfir á­hyggjum af nú­verandi fyrir­komu­lagi á skóla­akstri í Skutuls­firði. Áður fyrr hafi bílarnir iðu­lega verið troð­fullir um­fram leyfi­legan far­þega­fjölda en nú sé staðan sú að börnum sé neitað um inn­göngu ef bíllinn er fullur.

Fræðslu­nefnd hefur sam­þykkt að teknar verði út þær þrjár stoppi­stöðvar sem eru innan átta hundruð metra frá skólanum. Bæjar­ráðið fól bæjar­stjóra að vinna málið frekar.

Í minnis­blaðinu kemur fram að skóla­bílarnir séu iðu­lega troð­fullir og að það skapist hætta þegar börn standi í bílnum án þess að geta hreyft sig. Aðilar frá grunn­skólanum, for­eldrar og verk­takinn hafi lýst yfir á­hyggjum af stöðunni og hafa Vest­firskar ævin­týra­ferðir, sem sjá um skóla­aksturinn, tekið upp á því að banna börnum að­gang þegar bílarnir eru orðnir fullir.

Sí­fellt stærri hópur barna er sagður bíða við Jóns­garð sem er fimm hundruð metra frá skólanum. Þá fái færri sæti en vilja þegar kemur að akstri úr skólanum.