Í minnisblaði sviðsstjóra skóla- og tómstundasviðs Ísafjarðarbæjar er lýst yfir áhyggjum af núverandi fyrirkomulagi á skólaakstri í Skutulsfirði. Áður fyrr hafi bílarnir iðulega verið troðfullir umfram leyfilegan farþegafjölda en nú sé staðan sú að börnum sé neitað um inngöngu ef bíllinn er fullur.
Fræðslunefnd hefur samþykkt að teknar verði út þær þrjár stoppistöðvar sem eru innan átta hundruð metra frá skólanum. Bæjarráðið fól bæjarstjóra að vinna málið frekar.
Í minnisblaðinu kemur fram að skólabílarnir séu iðulega troðfullir og að það skapist hætta þegar börn standi í bílnum án þess að geta hreyft sig. Aðilar frá grunnskólanum, foreldrar og verktakinn hafi lýst yfir áhyggjum af stöðunni og hafa Vestfirskar ævintýraferðir, sem sjá um skólaaksturinn, tekið upp á því að banna börnum aðgang þegar bílarnir eru orðnir fullir.
Sífellt stærri hópur barna er sagður bíða við Jónsgarð sem er fimm hundruð metra frá skólanum. Þá fái færri sæti en vilja þegar kemur að akstri úr skólanum.