Helgi Hrafn Gunnars­son, þing­maður Pírata, segist ekki treysta for­sætis­nefnd Al­þingis til að veita leið­sögn í siða­reglu­málum eftir að nefndin stað­festi álit um brot flokks­systur Helga, Þór­hildar Sunnu Ævars­dóttur, gegn siða­reglum þingsins.

Frétta­blaðið hefur fjallað ítar­lega um málið sem snýr að um­mælum Þór­hildar Sunnu, þess efnis að rök­studdur grunur væri um að Ás­mundur Frið­riks­son hefði dregið sér fé í tengslum við endur­greiðslur, sem hann þáði frá þinginu á grund­velli aksturs­dag­bókar hans. Um­mælin féllu í þættinum Silfrinu á RÚV í febrúar í fyrra. Ás­mundur kvartaði í kjöl­farið til for­sætis­nefndar þingsins sem vísaði málinu til siða­nefndar.

Dregur til baka fyrirspurn til nefndarinnar

Helgi birti færslu á Face­book nú síðdegis þar sem hann segir að nefndin sé „greini­lega full­kom­lega óhæf til að beita svo mikið sem al­mennri skyn­semi í mati sínu“. Í færslunni segist Helgi hafa sent erindi til for­sætis­nefndar á seinasta þingi þar sem hann spurði um mörk milli þess að nýta að­stöðu Al­þingis til þing­starfa og einka­nota, þar sem þau verði „hratt frekar ó­skýr“.

Aldrei hafi borist svar og fyrir­spurnin lík­lega dottin niður milli þinga. Hann hafi hugsað sér að ítreka hana en nú, segir Helgi, kveður hins vegar við annan tón. „[Í] ljósi þess að for­sætis­nefnd er greini­lega full­kom­lega óhæf til að beita svo mikið sem al­mennri skyn­semi í mati sínu, hef ég hætt við að í­treka erindið, vegna þess að satt best að segja treysti ég ekki for­sætis­nefnd til að veita leið­sögn í siða­reglu­málum.“

Hann kveðst á­fram munu reyna að velta fyrir sér línunni um mörk þess að nýta sér að­stöðu Al­þingis til einka­nota og þing­starfa og dansa þar eftir eigin sann­færingu.

Virðing Alþingis sífellt flóknara hugtak

„[E]n ég frá­bið mér fyrir­fram álit for­sætis­nefndar á nokkru sem ég segi eða geri. Siða­reglur mun ég fram­vegis eiga al­farið við mína eigin sam­visku.“

Niður­stöðu for­sætis­nefndar segir hann „fá­rán­lega“. Það sé ekki það að þing­maður Pírata teljist brot­legur. Það eitt og sér sé eðli­legt þegar þing­maður Pírata brýtur siða­reglur.

„Það sem er svo gjör­sam­lega úti á túni, er að sann­leiks­gildi full­yrðingarinnar, sem Þór­hildur Sunna lét falla, er ekki metið,“ skrifar Helgi Hrafn.

„Á manna­máli þýðir það, að ef spilling á sér stað á Al­þingi, að þá brjóta þing­menn siða­reglur með því að tala um hana. Í al­vöru. Það er niður­staðan,“ bætir Helgi við og víkur að hinu marg­um­talaða hug­taki, virðingu Al­þingis.

„Þetta hugtak virðist bara verða flóknara með tímanum.“