Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, segist ekki hafa treyst sér í að senda fundarboð á Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins, vegna fundar formanna stjórnarandstöðuflokkanna sem fram fór í gær. Eftir samráð við formenn hinna flokkanna í stjórnarandstöðu, Viðreisn, Pírata og Flokk fólksins, og í ljósi þess sem á undan hefur gengið í tengslum við svokallað Klaustursmál, hafi verið ákveðið að Sigmundur fengi ekki boð á fundinn.

RÚV greindi fyrst frá í kvöldfréttum sínum. Logi segir að það sé vont ástand í þinginu þessa dagana. Færi svo að allir formennirnir hefðu hist á fundinum væri ljóst að þar væru samankomnir einstaklingar sem létu til sín taka í sóðatalinu á Klaustri bar og þeir sem á var minnst þar. Ekkert sé ákveðið um framhaldið og hvernig næstu fundum formanna stjórnarandstöðuflokkanna verði hagað.

Hann segir litla umræðu hafa farið fram um hugsanleg viðbrögð þingmanna við framkomu sexmenninganna, hvað störf þingsins varðar það er að segja. Hann kveðst óviss með hvernig hægt sé að bregðast við að svo stöddu. 

„Ég bara hreinlega veit það ekki. Þetta fólk verður bara að horfa í eigin barm og velta því fyrir sér hvort það geti sinnt starfi sínu nægilega vel og hvort störf þeirra í þinginu muni leiða til góðs fyrir samfélagið,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.

Hann kveðst sjálfur ekki eiga erfitt með að mæta fólkinu sem tók þátt í samræðunum á Klaustri í þinginu en telur víst að það geti reynst öðrum þrautinni þyngra, sér í lagi þeim sem fengu hvað verstu útreiðina.

„Ég get til dæmis ómögulega sett mig í þá stöðu sem Lilja og Albertína eru í,“ segir Logi og vísar þar með til Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra og Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur, flokkssystur hans. Lilja var í samræðunum kölluð „helvítis tík“ og þá töluðu þingmennirnir með klámfengnum hætti um hana. Albertínu var gefið að sök að hafa reynt að nauðga Gunnari Braga Sveinssyni, en hinn síðarnefndi steig fram eftir að upptökurnar voru birtar sagði ummælin ekki reist á neinum rökum.

„Maður er eiginlega bara hálf lamaður,“ segir Logi að lokum.