Viðhorfsbreyting gagnvart þolendum kynferðisofbeldis er nauðsynleg að sögn Þórdísar Valsdóttur fjölmiðlakonu.

Þórdís skrifaði pistil sem birtist á vef Vísis í dag um kynferðisofbeldi sem hún varð fyrir 19 ára gömul. Þar segist hún meðal annars hafa gert allt „samkvæmt bókinni,” í upphafi í það minnsta. Hún hafi leitað beint til Neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi þar sem hún var skoðuð af lækni og gaf skýrslu.

Í kjölfarið hitti Þórdís lögfræðing þar sem hún fékk upplýsingar um það hvernig mál af þessu tagi fari í réttarkerfinu. „Ég man að ég fékk að heyra það að þetta er rosalega erfitt, erfitt að sanna, erfitt á sálina, þetta tekur langan tíma,” segir Þórdís. Þá hafi henni verið settir ákveðnir afarkostir, hún hafi haft um níu vikur til að kæra málið. Þórdís segir ástæðuna hafa verið vegna allra sýna sem tekin höfðu verið á neyðarmóttökunni, þeim yrði hent.

Upplýsingarnar sem Þórdís fékk gerðu það að verkum að hún treysti sér ekki í slag gegn réttarkerfinu. Sönnun mála af þessu tagi væru erfið, orð gegn orði. Hún hafi því sópað öllu undir teppið.

Þórdís telur viðhorfsbreytingu samfélagsins gagnvart þolendum nauðsynlega
Mynd/aðsend

„Núna hefur þessu verið breytt, sýni sem tekin eru á neyðarmóttökunni eru geymd töluvert lengur. Þannig að umhugsunarfrestur þolanda er orðinn lengri en hann var allavega þegar þetta brot átti sér stað,” segir Þórdís sem fór nýlega á fund með verkefnastjóra Neyðarmóttökunnar til að forvitnast um hvernig hlutirnir væru í dag. Hún segir hlutina hafa breyst, starfsfólkið sé mögulega meira þjálfað í að taka á móti þolendum en áður.

Þór­dís telur vandann þó stærri, það sé margt sem spili inn í líkt og máls­með­ferðar­tími, rann­sóknir og sú stað­reynd að svona mál séu erfið í sönnun. Við­horfs­breyting sam­fé­lagsins gagn­vart þol­endum sé nauð­syn­leg.

Pistil Þórdísar má lesa í heild sinni hér.