„Það voru 4700 manns sem tóku þátt í þessu prófkjöri sem er þó nokkuð fleiri en í síðasta prófkjör sem voru þá rúmlega 4000 og okkur tókst það ætlunarverk þannig að það verður erfitt, ef að Sjálfstæðisflokkurinn fer í ríkisstjórn, þá verður erfitt að ganga framhjá suðurkjördæmi, það er alveg ljóst,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi formaður Samtaka iðnaðarins og einn eigandi Kjöríss.

Guðrún er nýr oddviti Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi fyrir þingkosningarnar sem fram fara í haust. Kjördæmið er víðfemasta kjördæmi landsins.

„Fólk vildi sjá nýja forystusveit, nýtt fólk og nýjar áherslur,“ segir Guðrún sem mætti til Sigmundar Ernis á Fréttavaktina

En þú með þín kosningu hlýtur að stefna ótrauð á ráðherradóm?

„Við skulum orða það þannig að ég alla vega treysti mér til að gegna ráðherrastöðu“, segir Guðrún.

Vildi fólk sjá konu?

„Já mögulega en ég ætla ekkert að segja til um það en ég lagði áherslu á það að ég væri að koma úr atvinnulífinu, búin að starfa nær alla mína ævi í litlu einkafyrirtæki og ég er síðastliðin tíu ár búin að vera í hagsmunabaráttu fyrir atvinnulíf á Íslandi.“

„Ég held að fólki hafi líka hugnast það að fá sterkar áherslur úr atvinnulífinu, því það verður örugglega brýnasta málið núna í nánustu framtíð,“ segir Guðrún.

Guðrún er búsett í Hveragerði og fjölskyldufyrirtækið Kjörís líka. Sá sem sóttist líka eftir oddvitasætinu er Vilhjálmur Árnason, þingmaður flokksins, búsettur í Grindavík, í Suðurkjördæmi síðan 2013.

Var það Hveragerði sem fleytti þér áfram?

„Ég sagði það í svona væmnum þakklætis status á facebook í gær til Hvergerðinga, vegna þess að það munaði 274 atkvæðum á mér og Vilhjálmi, við fengum bæði alveg feykigóða kosningu og í Hveragerði á laugardag þá kusu þrjú hundruð fleiri í prófkjörinu heldur en í síðasta prófkjöri. Og það eru eiginlega næstum því þrjú hundruð atkvæði sem skildi okkur Vilhjálm að.“

Mynd/Hringbraut

Nýr oddviti í Suðurkjördæmi hlýtur að gera tilkall til ráðherradóms á komandi kjörtímabili? Þið hafið ekki verið með ráðherra heilt kjörtímabil, þetta mikilvæga vígi Sjálfstæðismanna.

„Já og það hefur farið í taugarnar á Sjálfstæðismönnum í kjördæminu og hvar sem ég hef komið hefur fólk nefnt þetta. Það var markmið hjá mér í minni kosningabaráttu að ég ætlaði að sýna það að Suðurkjördæmi er sterkasta vígi Sjálfstæðisflokksins á Íslandi,“ segir Guðrún.