„Það athugar enginn með mann. Íslendingar treysta á þig sem ferðamann að vera í fimm daga sóttkví,“ segir fréttakonan Sarah Harman á NBC. Harman var með langt innslag um Ísland og árangurinn gegn COVID-19 og ræddi meðal annars við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Innslagið var sýnt í gær.

Katrín sagði að 98 prósent þeirra sem ættu að mæta í seinni skimun gerðu það.

Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði sendu frá sér ákall til stjórnvalda í gær þar sem krafist var herts eftirlits og skýrari leiðbeininga við landamærin. „Loks þegar farið var að birta til á ný með afléttingum fáum við fregnir af mögulegu hópsmiti sem á uppruna sinn að rekja til smits sem slapp í gegnum landamærin,“ segir í tilkynningunni. Þar segir einnig að kurr sé í veitingamönnum enda finnist þeim þeir þurfa að lúta mjög hörðu eftirliti lögreglu ólíkt þeim sem koma til landsins.

„Í veitingageiranum starfa um þúsund fyrirtæki með þúsundir manna í vinnu svo að samfélagslegur skaði af lélegu eftirliti á landamærum er gríðarlegur fyrir samfélagið í heild sinni,“ segir enn fremur.