Boðað verkfall flugumferðarstjóra frá klukkan fimm til tíu á þriðjudagsmorgun gæti haft mikil áhrif á starfsemi Icelandair.

Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir að treyst sé á að aðilar nái saman í tæka tíð svo það komi ekki til verkfalls. „Raskanir á flugi á þessum tíma geta haft mikil áhrif á starfsemi Icelandair, þar sem leiðakerfi okkar byggir á því að flugvélar okkar koma snemma morguns frá Bandaríkjunum og fljúga stuttu síðar áfram til Evrópu,“ segir Ásdís.

„Þennan tiltekna morgun eru sjö komur frá Bandaríkjunum á áætlun og 14 brottfarir til Evrópu. Við erum að skoða hvernig við gætum brugðist við ef til þess kæmi og myndum í því tilfelli að sjálfsögðu leggja mikla áherslu á að upplýsa farþega okkar með eins góðum fyrirvara og mögulegt verði einhverjar breytingar á flugáætlun.“