„Þó það gangi vel í Danmörku er ekki víst að það gangi jafn vel hjá okkur,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir aðspurður um hvort Ísland muni fylgja Danmörku í að hætta öllum aðgerðum á landamærum.

Þórólfur minnir á stóra bakslagið sem kom í sumar eftir að öllum aðgerðum var aflétt hér á landi.

„Við fengum þetta bakslag og aukningu á alvarlegum veikindum. Fólk gleymir því svolítið en við verðum að skoða allt í samhengi og fylgjast með nágrönnum okkar.“

Danir hafa nú fengið lengstu reynsluna af afléttingu takmarkanna og virðist ganga talsvert betur þar miðað við hér á landi þegar takmörkunum var aflétt. Norðurlöndin eru með mismunandi takmarkanir í gangi en virðast verða að komast aftur í nokkurt venjulegt ástand.

Danir opna landamæri en Þórólfur er ekki viss um að það muni ganga jafn vel á Íslandi.
Fréttablaðið/Anton Brink

Aðspurður segir Þórólfur að nágrannalöndin okkar hafi gert hlutina aðeins öðruvísi. Það gætu verið margþætta skýringar hvers vegna það gangi betur hjá hinum Norðurlöndunum að takast á við Covid-19 faraldurinn.

„Ein skýringin er sú að fleiri hafi fengið náttúrulega sýkingu í hinum Norðurlöndunum sem veitir betri vörn. Hin Norðurlöndin notuðu ekki Janssen bóluefnið en einn skammtur veitir ekki nægilega góða vernd, við sáum það og buðum við þeim sem fengu það bóluefni annan skammt með Pfizer bóluefni. Önnur lönd létu lengri tíma líða milli skammta og það getur vel verið að það hafi veitt betri vörn. Svo getur verið að nágrannar okkar passi sig bara betur. Við slepptum fram af okkur beislinu í sumar og allt fór á hliðina.“

Erum við að skima meira?

„Nei, þetta snýst ekki um að við séum að skima meira. Danir eru til dæmis með fleiri PCR próf en Íslendingar og ef litið er til spítalainnlagna þá gengur bara betur í Danmörku.“

Hefur áhyggjur af inflúensu og RS-veiru

Varðandi afléttingar segist Þórólfur miða við getu spítalans að taka við sjúklingum.

„Það var mjög þröngt á spítalanum í sumar eftir fjölgunina og nú erum við að fara inn í veturinn þar sem við getum búist við RS-veirufaraldri, sem hefur verið mikið vandamál meðal barna í Danmörku og Svíþjóð, sem gæti aukið álag á spítalanum. Svo vitum við ekki hvernig inflúensan verður í vetur. Hún kom ekki í fyrravetur og gæti komið af miklu afli núna. Það er ýmislegt sem getur spilað inn í þetta og við verðum að halda Covid vel niðri svo við lendum ekki í vandræðum á spítalanum. Þetta eru óvissuþættir.“

En fyrir tíma heimsfaraldurs Covid fengum við að sjálfsögðu inflúensu en þurftum ekki að upplifa takmarkanir þá.

„Nei en á móti kemur að það var engin inflúensa í fyrravetur og ef hún kemur núna verður það af meira afli en venjulega. Það að hún komi reglulega eykur ónæmi í samfélaginu en fyrst hún kom ekki í fyrra.“

Nú er 75 prósent landsmanna fullbólusett miðað er við mannfjölda 1. janúar 2021. Á vefnum covid.is má sjá að búið er að bólusetja 61,53 prósent ungmenna á aldrinum 12 til 15, 83,51 prósent einstaklinga á aldrinum 16 til 29 og 82,66 prósent af 30 til 39 ára.

Þórólfur segir að ekki séð verið að ýta mikið á eftir börnum að fara í bólusetningu. Foreldrar fái tilkynningu um að hægt sé að mæta í bólusetningu frekar en boð. Varðandi önnur ungmennin telur hann ástæðuna vera að þarna séu einstaklingar sem vilji ekki láta bólusetja sig.

„Það er ekki eins góð þátttaka í 16 ára upp í 30 ára en það er sennilega hópur sem hefur ákveðið að mæta ekki.“