Bandaríski tónlistarmaðurinn Travis Scott er í áfalli eftir hræðilegan atburð á tónleikum hans í Texas í gærkvöldi þar sem átta manns tróðust undir og létust.

„Ég er algjörlega niðurbrotinn eftir atvik gærkvöldsins. Ég bið fyrir fjölskyldum hinna látnu,“ skrifar Scott í færslu sem hann birti á Twitter í dag.

10 ára barn alvarlega slasað

Að minnsta kosti átta létu lífið og 300 særðust á Astroworld, tón­listar­há­tíð rapparans Tra­vis Scott sem haldin er í Texas um helgina. Mikið öng­þveiti varð á opnunar­kvöldi há­tíðarinnar en þangað lögðu um 50 þúsund manns leið sína til að sjá tónlistarmenn og hljómsveitir á borð við Travis Scott, Tame Impala, Earth, Wind & Fire, 21 Savage og Drake.

Slökkvi­liðs­stjóri Hou­ston sagði að á­horf­endur hafi byrjað að þrýsta sér fram að sviðinu þar sem Travis Scott ætlaði að troða upp um klukkan korter yfir níu um kvöldið. Við það skapaðist mikill glund­roði og fólk særst. Þá voru 23 einstaklingar fluttir á sjúkrahús, þar á meðal 10 ára barn sem er alvarlega slasað.

Hélt áfram að syngja

Óhuganleg myndbönd eru á dreifingu um netmiðla sem sýna áhorfendur reyna að fá sýningastjóra til að stöðva tónleikana án árangurs.

„Það var einhver að deyja. Það var einhver að deyja,“ öskrar kona á kvikmyndatökumann.

Annað myndband sýnir Travis Scott syngja og horfa í átt að meðvitundarlausum áhorfanda sem verið var að bera út af svæðinu.