Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, segir traustið á sölu Íslandsbanka horfið og að einhver þurfi að bera ábyrgð á því.

Þetta kemur fram í aðsendri grein Kristrúnar á vef Vísis.

Í grein sinni gagnrýnir Kristún harðlega kostnaðinn við söluferlið sem fór til fimm innlendra söluráðgjafa sem hafi fengið verkefnið án útboðs. Greiðslurnar sem þeir hafi fengið nemi 700 milljónum króna, eða 1,4 prósentum af söluandvirði.

Að sögn Kristrúnar er það há upphæð til að koma bréfum til fjárfesta, bréfum sem nú þegar hafi verið á markaði.

Í gær var birtur listi yfir kaupendur í útboði Íslandsbanka sem fór fram þann 22. mars á 22,5 prósenta hlut í bankanum.

Meðal kaupenda var faðir fjármálaráðherra, Benedikt Sveinsson, en hann keypti 0,1042 prósenta hlut í bankanum í nafni félagsins Hafsilfurs sem er í hans eigu. Benedikt keypti fyrir um 54 milljónir í útboðinu en einnig á meðal stærri kaupenda er Eignarhaldsfélagið Steinn ehf. sem er í eigu Þorsteins Más Baldvinssonar í Samherja. Hann keypti fyrir tæpar 300 milljónir í útboðinu.

Afsláttur frá markaðsverði

Kristrún segir skilning langflestra að ástæðan fyrir því að ákveðið hafi verið að fara tilboðsleið og veita afslátt frá markaðsverði á ríkiseign hafi verið vegna þess að með því fengjust langtímafjárfestar sem væru að kaupa það stóran hlut að ekki væri auðsótt að kaupa slíkan hlut beint á markaði.

„Enda var markmiðið í þessum hluta útboðsins, eins og framkvæmdastjóri Bankasýslunnar sagði sjálfur, ekki dreift eignarhald, enda náðist það með frumútboðinu.

Svo fréttist af litlum fjárfestum í útboðinu, fjárfestum sem gátu hæglega keypt á markaði eins og allir aðrir enda um lágar upphæðir að ræða. Eðlilega vakna spurningar í hverja var hringt, enda margir sem gætu fallið undir skilgreininguna hæfur fjárfestir sem á undir 10 milljónir króna til að fjárfesta,“ segir Kristún meðal annars í grein sinni.

Ekkert traust og ábyrgðin óljós

Kristrún spyr hver ætlar að bera ábyrgð á því að traustið á söluferli Íslandsbanka sé horfið. Þegar verið sé að stunda viðskipti með eigir og fjármuni ríkisins sé gerð krafa um gagnsæi og jafnræði sem sé mun stífara en í viðskiptum einkaaðila til að koma í veg fyrir spillingu.

Að sögn Kristrúnar er mikilvægt að fram fari alvöru skoðun á söluferlinu og þeim spurningum sem ekki hefur verið svarað almennilega verði svarað.

„Markmiðin með þessum öðrum áfanga sölunnar verða óljósari og óljósari. Snerist þetta um dreift eignarhald eða ekki? Snerist þetta um lágmörkun kostnaðar eða ekki? Snerist þetta um aðkomu langtímafjárfesta eða ekki? Það er ekki hægt að ráðstafa eignum almennings á afslætti án tilhlýðandi rökstuðnings.

Það er ekki hægt að handvelja án útskýringa söluaðila og greiða þeim svo hundruðir milljóna í þóknun umfram óskilgreind markmið. Einhver þarf að bera ábyrgð á því að traustið á þessu söluferli er horfið,“ segir Kristrún að lokum í grein sinni.