Krist­rún Frosta­dóttir, for­maður Sam­fylkingarinnar, er sá stjórn­mála­leið­togi sem Ís­lendingar treysta best, sam­kvæmt nýrri könnun. Traust til for­sætis­ráð­herra hrynur.

Katrín Jakobs­dóttir er ekki lengur sá stjórn­mála­leið­togi sem lands­menn treysta best. Þetta kemur fram í nýrri könnun Prósents. Flestir lands­menn treysta Krist­rúnu Frosta­dóttur, for­manni Sam­fylkingarinnar, best allra formanna, eða 25,4 prósent þeirra sem tóku af­stöðu.

Katrín hefur lengi verið lang­vin­sælasti stjórn­mála­leið­toginn. Í októ­ber í fyrra vildu 57,6 prósent hana sem for­sætis­ráð­herra sam­kvæmt könnun Maskínu, en enginn annar stjórn­mála­leið­togi náði 10 prósentum. Í könnun Prósents sem gerð var 14. til 17. nóvember mælist Katrín með 17, 5 prósent þegar spurt er: Hvaða for­manni ís­lenskra stjórn­mála­flokka treystir þú best?

Mynd/Prósent

Í þriðja sæti er Bjarni Bene­dikts­son, for­maður Sjálf­stæðis­flokksins, með 15,4 prósent.

11,3 prósent lands­manna treysta Sigurði Inga Jóhanns­syni, for­manni Fram­sóknar­flokksins, best. Þar á eftir kemur Þor­gerður Katrín Gunnars­dóttir, for­maður Við­reisnar, með 9,7 prósent, Hall­dóra Mogen­sen, þing­flokks­for­maður Pírata, með 8,9 prósent, Inga Sæ­land, for­maður Flokks fólksins, með 7 prósent og Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son, for­maður Mið­flokksins, rekur lestina með 4,6 prósent.

Fyrir utan yfir­gnæfandi stuðning innan Sam­fylkingarinnar nýtur Krist­rún tölu­verðs stuðnings úr öðrum flokkum. Til að mynda treysta 53 prósent kjós­enda Sósíal­ista­flokksins henni best, 23 prósent Við­reisnar­fólks, 16 prósent Pírata og 11 prósent Fram­sóknar­manna.

Katrín er enn sá for­maður sem nýtur mests stuðnings innan eigin flokks, 90 prósent kjós­enda VG treysta henni best. Katrín nýtur einnig stuðnings 15 prósenta Sjálf­stæðis­manna, 14 prósenta Sósíal­ista og 13 prósenta Fram­sóknar­manna.

72 prósent Sjálf­stæðis­manna treysta Bjarna best. Hann hefur nær engan stuðning út fyrir flokkinn, nema 7 prósent hjá kjós­endum Mið­flokksins.

Þá treysta 9 prósent Fram­sóknar­manna Þor­gerði Katrínu best, 7 prósent kjós­enda Flokks fólksins treysta Sig­mundi Davíð best og 5 prósent Sjálf­stæðis­manna treysta Ingu Sæ­land best.

Lítill munur er á trausti eftir kynjum nema hjá Katrínu. 23 prósent kvenna treysta henni best en 13 prósent karla. Krist­rún, Bjarni, Sigurður Ingi, Hall­dóra, Þor­gerður og Sig­mundur Davíð hafa öll litlu meiri stuðning karla en kvenna. Inga Sæ­land nýtur ör­lítið meiri kven­hylli.

Katrín er sá for­maður sem nýtur mests fylgis ungs fólks, það er 22 prósenta kjós­enda undir 25 ára aldri. Krist­rún Frosta­dóttir hefur hins vegar mestan stuðning hjá kjós­endum 55 ára og eldri, slétt 30 prósent.

Á lands­byggðinni treysta 18 prósent Sigurði Inga best en að­eins 8 prósent á höfuð­borgar­svæðinu. 13 prósent á höfuð­borgar­svæðinu treysta Hall­dóru í Pírötum best en að­eins 2 prósent lands­byggðar­fólks.

Könnunin var net­könnun, fram­kvæmd 14. til 17. nóvember. Úr­takið var 2.600 og svar­hlut­fallið 51,3 prósent.