Stjórn Festi neyddist til að boða til hluthafafundar í kjölfar þess að í ljós kom að stjórnin hafði vitandi vits sent tilkynningu með röngum upplýsingum um starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar forstjóra félagsins til Kauphallarinnar.

Í tilkynningu stjórnar til Kauphallarinnar kom fram að Eggert hefði óskað eftir að láta af störfum en í ljós kom að stjórnin hafði átt frumkvæði að starfslokunum. Ekki sér fyrir endann á eftirköstum þess máls gagnvart Kauphöllinni, en það er litið mjög alvarlegum augum þegar skráð fyrirtæki senda rangar upplýsingar til markaðarins, ekki síst þegar slíkt er vísvitandi gert.

Tilnefningarnefnd Festi gerði tillögu um níu frambjóðendur í stjórnarkjöri, en fimm sitja í stjórn. Tillagan hljóðaði upp á alla sitjandi stjórnarmenn, þau Guðjón Reynisson stjórnarformann, Margréti Guðmundsdóttur varaformann stjórnar og stjórnarmennina Ástvald Jóhannsson, Sigrúnu Hjartardóttur og Þóreyju Guðmundsdóttur og fjóra til viðbótar, þau Björgólf Jóhannsson, Magnús Júlíusson, Sigurlínu Ingvarsdóttur og Þórdísi Jónu Sigurðardóttur.

Lífeyrissjóðirnir eru langstærstu eigendur Festi með um 73 prósent alls hlutafjár. Ljóst er að atkvæði þeirra munu mestu ráða um það hverjir skipa stjórn Festi eftir hluthafafundinn.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins liggur nokkuð ljóst fyrir að Sigurlína Ingvarsdóttir, sem nýtur stuðnings Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, stærsta hluthafans, Hjörleifur Pálsson, sem studdur er af Lífeyrissjóði verslunarmanna, og Björgólfur Jóhannsson, sem á vísan stuðning Stapa lífeyrissjóðs og stórra einkafjárfesta, séu örugg um kosningu í stjórn.

Þá er talið líklegt að Magnús Júlíusson, sem nú er aðstoðarmaður Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, nái kosningu. Hann nýtur stuðnings meðal lífeyrissjóða, auk þess sem hann hefur stuðning Bjarna Ármannssonar og fleiri öflugra einkafjárfesta.

Þá er eftir eitt stjórnarsæti og lögum samkvæmt verður kona að skipa það. Líklegt er talið að Helga Jóhanna Oddsdóttir hljóti stuðning til stjórnarsetu.

Það flækir þó stöðuna að margfeldiskosning verður viðhöfð í stjórnarkjörinu. Í slíkri kosningu geta einstakir hluthafar sett öll sín atkvæði á einn frambjóðanda í stað þess að þurfa að dreifa þeim jafnt á þann fjölda sem kjósa skal í stjórn. Þetta getur leitt til óvæntrar niðurstöðu.

Þá eykur það einnig óvissuna að Gildi – lífeyrissjóður mun ekki gefa upp afstöðu sína í stjórnarkjöri fyrr en á fundinum sjálfum.

Nær allir viðmælendur Fréttablaðsins telja að öllum núverandi stjórnarmönnum verði skipt út. Ástæðan sé einföld. Allt traust til stjórnarinnar og einstakra stjórnarmanna sé horfið vegna hinnar vísvitandi röngu tilkynningar sem send var Kauphöllinni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er ólíklegt að ný stjórn þýði að bakkað verði með starfslok Eggerts Þórs Kristóferssonar, málið snúist ekki um það hjá stærstu hluthöfum heldur að fráfarandi stjórn hafi fyrirgert trausti sínu.

Kunnugir telja ólíklegt að niðurstaða í stjórnarkjöri á hluthafafundi Festi hf. í dag leiði til þess að Eggert Þór Kristófersson, fráfarandi forstjóri félagsins, gegni starfi sínu áfram.
Fréttablaðið/Valli