Aðalskoðun leiksvæða í Reykjavík, sem samkvæmt reglugerð skal framkvæmd á minnst tólf mánaða fresti, hefur einungis verið framkvæmd í undantekningartilfellum síðan árið 2013.

Þetta staðfestir Ólafur Ólafsson, deildarstjóri opinna svæða hjá borginni.

Reglur um skoðun leiksvæða kveða á um að rekstraraðili skuli sjá til þess að á leiksvæðum sé svokölluð rekstrarskoðun framkvæmd ársfjórðungslega. Einnig skal rekstraraðili sjá til þess að aðalskoðun sé framkvæmd einu sinni á ári af faggiltum skoðunaraðila, í þeirri skoðun skal staðfesta öryggi leiksvæðisins í heild.

Ástæðuna fyrir því að aðalskoðun sé ekki framkvæmd segir Ólafur vera að niðurstöður og athugasemdir úr rekstrar- og aðalskoðun séu þær sömu, því hafi verið ákveðið að leggja áherslu og fjármuni í að sinna ábendingum úr rekstrarskoðun.

Þá segir hann að eftir hrun hafi verið dregið verulega úr fjármunum til viðhalds á mannvirkjum borgarinnar og að í kjölfarið hafi verkefnin hlaðist upp.

„Það hefur verið uppi umræða um að þetta séu mjög ítarlegar kröfur og ég efast um að nokkur geti látið rekstrarskoða hjá sér fjórum sinnum á ári og svo aðalskoða,“ segir Ólafur og bætir við að borgin láti rekstrarskoða árlega. „Við höfum bara ekki komist yfir meira.“

Viðurlög við brotum á reglugerð um öryggi leikvallatækja og leiksvæða, hvort sem þau eru framin af ásetningi eða gáleysi, geta varðað sektum eða fangelsi. Aðspurður hvort borgin hafi þurft að sæta viðurlögum segir Ólafur svo ekki vera.

Spurður að því hvort ekki sé alvarlegt að borgin fylgi ekki settum reglugerðum segir Ólafur að vel megi rökstyðja það, „en ég er að reyna að rökstyðja af hverju við gerum þetta svona. Við teljum skynsamlegt að að vinna úr athugasemdum rekstrarskoðunar á skipulegan hátt,“ segir hann.

„Þetta eru mjög ítarlegar skoðanir,“ bætir Ólafur við.