Íslandsdeild Transparency International gaf í dag út sameiginlega yfirlýsingu ásamt stofnuninni IPPR, Institute for Public Policy Research, vegna samstarfs Íslands og Namibíu á Samherjamálinu. Málið hefur verið í rannsókn frá árinu 2019, þegar WikiLeaks birti gögn um mútugreiðslur sem höfðu tryggt Samherja fiskveiðikvóta á namibískum miðum.

Yfirlýsingin var gefin út í tilefni heimsóknar Netumbo Nandi-Ndaitwah, varaforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu, til Íslands fyrr í vikunni.

„Fregnir af því að ríkissaksóknarinn Martha Imalwa og varaframkvæmdastjóri nefndarinnar gegn spillingu, Erna van der Merwe, séu einnig á Íslandi að funda við íslenska rannsakendur og saksóknara, boða gott um hugsanlegt samstarf í þessari fjölþjóðlegu glæparannsókn.“

„Þetta gagnkvæma samstarf er í samræmi við skuldbindingar Namibíu og Íslands samkvæmt sáttmála Sameinuðu þjóðanna gegn spillingu, sem bæði ríkin hafa undirritað og fullgilt.“

„Við vekjum á því athygli að þann 7. júní 2022 hefur Namibía ekki enn afhent formlega beiðni um framsal hinna þriggja grunuðu Íslendinga sem eru eftirlýstir í Nambíu vegna Samherjamálsins. Við hvetjum til þess að dómsmálaráðherra Namibíu, Yvonne Dausab, kunngeri eins fljótt og hægt er ákvörðun sína um framsalsbeiðnina í samræmi við réttarhagsmuni og réttláta málsmeðferð, með sérstaka hliðsjón af 44. gr. sáttmálans gegn spillingu (sem fjallar um mál tengd framsali sakamanna).“

„Borgarar í báðum löndum hafa komið því á framfæri, með mótmælum, fréttarannsóknum og borgaralegum aðgerðum, að ekki sé réttlætanlegt að aðeins namibískir ríkisborgarar séu látnir bera lagalega ábyrgð á Samherjamálinu þegar Íslendingar áttu greinilega einnig aðild að spillingarhneykslinu.“

[Texti úr yfirlýsingunni er þýddur úr ensku af blaðamanni.]