Rakel G. Brandt segir að systir sín hafi verið rekin út af skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur vegna þess að hún er trans kona, undir því yfirskini að hún hafi ekki uppfyllt reglur staðarins um klæðaburð.

Sjá einnig: Ætlar að leggja fram kæru vegna mismununar

Rakel hélt upp á afmælið sitt í gær, og hafði í tilefni af því samband við nokkra skemmtistaði í Reykjavík. Hverfisbarinn svaraði erindi hennar vel, og bauð henni sérkjör á bjór svo hún gæti haldið upp á áfangann með vinum sínum. „Ég var búinn að senda nokkrum börum skilaboð um að ég væri að koma með tíu til 20 manns vegna afmælis. Hverfisbarinn gaf mér tilboð og ég mætti þangað með systur minni snemma um kvöld,“ segir Rakel í samtali við Fréttablaðið.

Of MH-leg í klæðaburði

Hún segist hafa verið á staðnum ein með systur sinni snemma kvölds, þegar fámennt var um kvöldið, og þá hafi enginn gert athugasemd við klæðaburð þeirra. „Seinna um kvöldið förum við svo út að reykja, og þá kemur dyravörður að systur minni og segir að við getum ekki verið þarna því við fylgjum ekki 'dress code-i',“ segir Rakel. „Hann segir að við séum svo MH-leg í klæðaburði. Þegar við spyrjum hann hvað ósköpunum hann á við getur hann ekki útskýrt það nánar.“

Rakel segir að dyravörðurinn hafi þó fallist á að þau mætti vera áfram, í það minnsta um stund. „Hann segir þarna að við megum við áfram, en ákveður svo allt í einu seinna um kvöldið að við þurfum að fara.“

Systir Rakelar er trans kona, og heldur hún að þeim hafi verið vísað af staðnum vegna þess. „Þegar við spyrjum hann hvort það sé vegna þess að systir mín sé trans neitar hann því ekki, og segir að við megum túlka þetta eins og við viljum.“

Gat ekki hleypt inn „gaur í kellingapels“

Ída Finnbogadóttir, vinkona Rakelar og gestur í afmæli hennar í gær, tjáir sig um atvikið á Twitter-síðu sinni. Þar segir hún að klæðaburðarreglurnar sem systir Rakelar á að hafa brotið gegn séu ekki skýrari en svo, að hún hafi sjálf fengið að fara inn á staðinn í sömu flík og systirin var í þegar henni var vísað á dyr.

Hefur hún jafnframt orðrétt eftir dyraverðinum, og segir að hann hafi sagst ekki geta hleypt „gaur í kellingapels“ inn á staðinn. Ída hvetur til þess að skemmtistaðurinn sé sniðgenginn vegna framkomu dyravarðarins.