Transkonan Muhlaysia Booker, var skotin til bana í Dallas í Texas í Bandaríkjunum. Hún fannst látin á götu úti á laugardagsmorgni. Grunur leikur á að hún hafi verið myrt.

BBC greinir frá þessu. Lögreglan segir að óljóst sé á þessari stundu hvort um hatursglæp hafi verið að ræða.

Aðeins mánuður er síðan veist var að Booker með byssu á vettvangi umferðarslyss, sem hún olli. Myndbandi af þeirri uppákomu var deilt á samfélagsmiðlum. Þar var þeim sem á var ekið meðal annars boðnir 200 dollarar, um 22 þúsund krónur, fyrir að ganga í skrokk á Booker.

Á myndbandinu sást hvernig maðurinn, Edward Thomas, setti á sig hanska og barði hana ítrekað. Hún ristarbrotnaði og fékk heilahristing í þeirri árás. Hann hefur verið kærður fyrir árásina.

Lögreglan hefur ekki viljað svara því hvort henni hafi borist líflátshótanir í kjölfar þess atviks. Lögreglan hefur þó sagt að Thomas sé ekki grunaður um morð.

BBC segir að transkonur séu sérstaklega útsettar fyrir ofbeldisverkum í Bandaríkjunum. Það gildi sérstaklega um konur sem séu þeldökkar. Mannréttindasamtökin Human Rights Campain segir að 26 morð hafi verið framin á transfólki í Bandaríkjunum í fyrra. Iðulega hafi árásarmennirnir uppi fordómafullt orðfæri í árásunum.