Fjöl­mörg lönd bjóða nú upp á hlut­lausa kyn­skráningu í vega­bréfum, þar á meðal Ís­land, sem getur gagnast þeim ein­stak­lingum sem skil­greina sig sem trans, kyn­segin eða hvorki sem karl né konu. Ekki kjósa þó allir kyn­segin ein­staklingar að láta breyta kyn­skráningu sinni á þennan hátt, meðal annars vegna ótta um mis­munun eða skrif­ræðis­legar hindranir, eins og kemur fram í nýrri um­fjöllun vef­miðilsins Open­ly sem rekinn er af frétta­stofunni Reu­ters.

Hér á landi stendur kyn­segin fólki til að boða að láta skrá kyn sitt sem X í vega­bréfi í staðinn fyrir hið hefð­bundna M – fyrir „Male“ og F – fyrir „Fema­le“. Rætt er við ís­lenska há­skóla­nemann og aktív­istann Mars Proppé sem skil­greinir sig sem kyn­segin en hán segist ekki hafa í hyggju að breyta vega­bréfi sínu á næstunni.

„Ég á enn eftir að fara í meistara­nám og vonast til að geta ferðast um heiminn og það er ekki eitt­hvað sem ég held að ég geti gert með „X“ í vega­bréfinu mínu. Alla­vega ekki á öruggan hátt, held ég,“ segir Mars í sam­tali við Open­ly.

„Ég stefni á að breyta skráningunni þegar ég verð eldri og þegar heimurinn er vonandi al­mennt orðinn opnari gagn­vart kyn­segin fólki,“ segir Mars sem er 23 ára og stundar nám í eðlis­fræði við Há­skóla Ís­lands.

Kyn­segin og trans fólk sætir auknu eftir­liti

Mann­réttinda­sam­tök og sam­tök sem berjast fyrir réttindum hin­segin fólks hafa fagnað á­kvörðun ríkja á borð við Ís­lands um að gefa út kyn­hlut­laus vega­bréf. Banda­ríkin, undir for­ystu for­setans Joe Biden, gáfu út fyrsta kyn­hlut­lausa vega­bréfið þar í landi í fyrra­sumar þegar Dana Zzyym, sem er bæði kyn­segin og inter­sex, fékk út­hlutað vega­bréfi með kyn­skráningunni X.

Önnur lönd á borð við Ástralíu, Nýja-Sjá­land, Pakistan og Ind­land bjóða einnig þegnum sínum upp á sam­bæri­lega þjónustu en margt trans og kyn­segin fólk er þó uggandi yfir því að slíkar kyn­skráningar gætu dregið ó­æski­lega at­hygli í landa­mæra­eftir­liti eða gert þeim erfitt fyrir að bóka flug­miða.

„Fyrir margt trans fólk, og á það klár­lega við um mig, þá horfir fólk á mann og sér mun og það þýðir að ég þarf að fara í sér­staka öryggis­leit,“ segir Alex, trans ein­stak­lingur frá Nýja-Sjá­landi sem notar kyn­hlut­laus forn­öfn.

„Ég vildi ekki setja „X“ á vega­bréfið mitt af því ég hélt að það gæti ýtt undir það að fólk héldi að ég væri eitt­hvað öðru­vísi og látið mig ganga undir aukna öryggis­leit.“

Á Ind­landi bjóða flest opin­ber per­sónu­skil­ríki upp á þrjár mögu­legar kyn­skráningar, karl­kyns, kven­kyns og trans, sem er merkt sem „T“ á vega­bréfum.

T-ið er í boði fyrir kyn­segin, inter­sex og trans fólk og er til dæmis notað af fólki sem skil­greinir sig sem hijras, sem er minni­hluta­hópur með langa sögu í Suð­austur-Asíu og er stundum kallaður „þriðja kynið“.

Vilja láta fjar­lægja kyn­skráningu al­farið

Ein af þeim hindrunum sem gætu mætt fólki sem er með kyn­hlut­laus vega­bréf eru flug­fé­lög sem mörg hver bjóða að­eins upp á mögu­leikann „Kona“ og „Karl“ í bókunar­kerfi sínu. Sum af stærri flug­fé­lögum Banda­ríkjanna hafa þó heitið því að ráða bót á þessu en hingað til eru flug­fé­lögin United og American Air­lines þau einu sem hafa bætt fleiri möguleikum en „M“ og „F“ í bókunar­kerfin sín.

Þótt margir muni ef­laust fagna slíkum breytingum telja sumir að loka­tak­markið ætti að vera að fjar­lægja al­farið kyn­skráningu úr opin­berum skil­ríkjum, bókunar­kerfum og gagna­bönkum.

„Eftir því sem tímanum fleygir fram erum við sí­fellt að átta okkur betur á því hvaða kerfi eru slæm og kerfi sem byggist á kynjat­ví­hyggju gengur í raun ekki upp,“ segir Alex frá Nýja-Sjá­landi.