Trans Ísland segir það vera mikil vonbrigði að sjá heilbrigðisstarfsfólk fara með rangfærslur og vísa þar til greinar Arnars Sverrissonar sálfræðings um kynvitund Trans fólks en greinir var birt á visir.is í gær. Að því er kemur fram í yfirlýsingu félagsins vísar Arnar til úreltra kenninga um kynvitund í grein sinni og segir trans fólk vera með raskanir og brenglanir.

„Í greininni er trans fólki blandað saman við aðra hópa hinsegin samfélagsins, líkt og við intersex fólk og dragdrottningar, og jafnvel er sís fólk (e. cisgender) talið til trans fólks, en hugtakið lýsir fólki sem er ekki trans,“ segir í yfirlýsingunni sem formaður Trans Ísland, Ugla Stefanía Kristjönudóttir, skrifar undir.

Í engu samræmi við nútíma skilgreiningar

Í yfirlýsingunni kemur fram að innan nútíma sálfræði og geðlækna hafi skilgreiningum Arnars verið hafnað og að ICD-sjúkdómakerfið, sem Arnar vísar í sér til stuðnings, hafi uppfært sínar skilgreiningar þannig að það að vera trans er ekki lengur flokkað sem geðröskun af neinu tagi. „Það er því ljóst að höfundur hefur ekki kynnt sér þessi hugtök til hlítar né er fær um að beita þeim rétt.“

„Fræðihugtök og orðskýringar höfundar eru í engu samræmi við nútíma skilgreiningar eða heiti og eru sum hugtök hreinn og beinn uppspuni af hálfu höfundar,“ segir enn fremur í yfirlýsingunni og segir félagið að það sé mikið áhyggjuefni að sálfræðingur fari með slíkar fleipur og haldi á lofti hugtökum sem eru misvísandi, meiðandi og niðrandi fyrir viðkvæman samfélagshóp.

Alrangt að heilbrigðisþjónusta sé veitt án vandlegrar athugunar

Þrátt fyrir að hér á landi hafi mannréttindabarátta hinsegin fólks skilað miklu, og að með lögum um kynrænt sjálfræði hafi verið stigið mikilvægt skref í áttina að réttlátara samfélagi, segir félagið að trans fólk upplifi enn mikla fordóma og útskúfun. „Höfundur bætir gráu ofan á svart með grein sinni, sem er lítið annað en níð gagnvart trans fólki og jaðrar við hatursorðræðu.“

Þá segir félagið að bókin sem Arnar vísar til í grein sinni eigi ekki við nein vísindaleg rök að styðjast og njóti hvorki viðurkenningar innan læknisfræði né sálfræði. „Efnið sem vísað er til kemur beint undan rifjum öfgahópa sem leggja kapp á að beita sér gegn aðgengi trans fólks að heilbrigðisþjónustu með hættulegum og meiðandi áróðri,“ segir enn fremur.

Einnig kemur fram að heilbrigðisþjónusta fyrir trans börn og unglinga sé alltaf byggð á fremstu rannsóknum og það sé alrangt að slík þjónusta sé veitt án vandlegrar athugunar. „Þvert á móti hefur reynst erfitt fyrir foreldri og ungmenni að fá þá þjónustu sem þau þurfa á að halda hérlendis, enda hefur ekki verið starfandi eiginlegt trans heilbrigðisteymi fyrir trans börn og unglinga síðan í byrjun þessa árs.“

Skora á Landlæknisembættið og Sálfræðingafélag Íslands

Trans Ísland segir að það sé nær ómögulegt að ímynda sér hver tilgangur greinar Arnars er og að það sé undarlegt að greinin hafi verið birt á fréttamiðli. „Að höfundur fleygi fram slíkum fullyrðingum og hann gerir í grein sinni er fullkomlega ábyrgðarlaust og ólíðandi í nútíma lýðræðissamfélagi. Með því að birta slíka grein eru fjölmiðlar að ýta undir fordómafulla og meiðandi orðræðu sem gengur þvert á við siðareglur fjölmiðla, sálfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks almennt,“ segir félagið.

„Við skorum því á ritstjórn visir.is til að standa betur vörð um réttindi trans fólks og að farið sé eftir lágmarkskröfum þegar birtar eru greinar á vef þeirra og að slíkt níð og rógburður sé ekki liðið né birt á vef þeirra. Einnig skorum við á Landlæknisembætti og Sálfræðingafélag Íslands að tekið verði á þessu máli af ábyrgð og heiðarleika og að afleiðingar verði vegna þessa grófa brots á siðareglum sálfræðinga og heilbrigðisstarfsfólks,“ segir að lokum.