Trans Ísland hefur ákveðið að setja upp sjóð til að koma til móts við það trans fólk sem hefur ekki efni á að borga gjaldið fyrir nafna- eða kynskrárbreytingu hjá Þjóðskrá. Gjaldið er 9.000 krónur fyrir breytinguna en fyrr í vikunni gagnrýndu samtökin harðlega að sérstakt gjald væri lagt á svo viðkvæman hóp.
„Það er óviðunandi að trans fólki þurfi að borga fyrir slíka leiðréttingu og þar mikið réttlætismál að trans fólki hafi óhindrað aðgengi að slíkum breytingum,“ sagði í yfirlýsingu frá samtökunum
Gjaldið fer í ríkissjóð
Þjóðskrá svaraði gagnrýninni í dag og kvaðst ekki hafa til að fella niður gjöld fyrir kyn- of nafnbreytingu. Gjaldið rynni ekki til Þjóðskrár heldur í ríkissjóð og byggðist á lögum um aukatekjur ríkissjóðs.
„Þjóðskrá hefur skilning á því að gjaldið getur verið umtalsverður kostnaður fyrir einstaklinga, en bendir á að það sé á forræði Alþingis að ákvarða gjaldtökuna.“
Ætti að vera ókeypis
Trans Ísland svaraði Þjóðskrá í kvöld og tilkynnti um stofnun sérstaks sjóðs sem myndi greiða gjaldið fyrir efnalítið trans fólk. „Að okkar mati ætti þessi þjónusta að vera gjaldfrjáls þar sem um leiðréttingu á skráningu er að ræða.“
Frekari upplýsinga um sjóðinn eru væntanlegar í þessari viku eða þeirri næstu. „Trans Ísland hefur einnig hafið vinnu við að fá viðeigandi lögum breytt svo að gjald fyrir slíkar breytingar verði fellt úr lögum.“