Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (W.H.O.) fjarlægði trans af lista yfir geðsjúkdómagreiningar á árlegri samkomu stofnunarinnar laugardaginn 25. maí síðastliðinn. Er því trans ekki lengur álitinn geðsjúkdómur af heilbrigðisstofnuninni. Þá var stofnaður nýr greiningarflokkur um kynheilsu sem trans fellur undir.

Gríðarlega mikilvægt skref

„Við sitjum hér og krossum fingurna á hverjum degi að það fari í gegn áður en þing lokar fyrir sumarið.“

„Þetta er eitthvað sem við og trans fólk og hinsegin samtök höfum verið að berjast fyrir í mörg ár. Þetta er afleiðing margra ára alþjóða samstarfs við alþjóðaheilbrigðisstofnunina og fleiri heilbrigðisstofnanir til að endurskilgreina hvað það er að vera trans,“ segir Sólveig Rós, fræðslustýra Samtakanna 78, í samtali við Fréttablaðið og bætir við að þetta sé gríðarlega mikilvægt skref í réttindabaráttu trans fólks. Hún segir ekkert að því að vera með geðsjúkdóm en að reynsla og upplifun flestra sé að ekki sé um geðsjúkdóm að ræða.

„Hvert land tekur ákveðinn tíma að innleiða þennan staðal inn í sitt heilbrigðiskerfi. Þetta er ekki að fara að gerast samstundis á Íslandi en þetta er í samhengi við frumvarpið um kynrænt sjálfræði. Enn þann dag í dag er trans skilgreint sem geðsjúkdómur.“

Sólveig Rós, fræðslustýra Samtakanna 78
Eyþór Árnason

Nýr kynheilbrigðisflokkur var stofnaður fyrir trans, eins konar málamiðlun sem margir eru sáttir við. Þá telst trans enn sem heilbrigðismál til þess að trans fólk geti fengið heilbrigðisþjónustu fyrir lyfjameðferðir og skurðaðgerðir í gegnum almannatryggingar en ekki einkaaðila, sem myndi vera gífurlega kostnaðarsamt fyrir þá einstaklinga.

„Þetta er stórt skref fyrir réttindabaráttu trans fólks víðsvegar um heim.“

„Þetta þarf að vera einhvers staðar. Margt trans fólk þarf heilbrigðisþjónustu; aðgang að hormónum og skurðaðgerðum. Það er gífurlega mikilvægt fyrir þeirra heilsu að þeirra ferli sé hluti af heilbrigðiskerfinu en ekki í gegnum einkaaðila. Þess vegna er þetta inni í einhvers konar greiningu. Annars gætu almannatryggingar sagt að þetta sé ekki lengur heilbrigðismál. Þannig þetta er enn hluti af heilbrigðisþjónustu, en ekki geðsjúkdómur. Þess vegna bjó W.H.O. til nýja kynheilbrigðisflokkinn segir Sólveig.

Í línu við frumvarp um kynrænt sjálfræði

Frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, sem varð til að frumkvæði samtakanna Intersex Ísland og Trans Ísland, er þegar komið í þinglega meðferð og er það í línu við úrskurð Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina.

„Að mínu mati styrkir þetta frumvarpið og tilgang þess, og sýnir hversu mikilvægt það er að það komist í gegn sem allra fyrst,“ segir Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, kynfræðingur og formaður Trans Íslands, í samtali við Fréttablaðið.

Sólveig Rós tekur undir með Uglu og segir það mikilvægt að frumvarpið verði að lögum.

„Við sitjum hér og krossum fingurna á hverjum degi að það fari í gegn áður en þing lokar fyrir sumarið,“ segir Sólveig en eins og Fréttablaðið hefur greint frá hefur ekkert annað mál komist að í dagskrá Alþingis í rúma viku vegna málþófs um þriðja orkupakkann.

Trans fólk ekki lengur sjúkdómsvætt

„Þetta þýðir í raun að trans fólk er ekki lengur sjúkdómsvætt á sama hátt og áður, og að vera trans er ekki lengur álitið sem einhverskonar geðsjúkdómur eða ástand. Þetta hefur verið fært um flokk og fært yfir í kynheilbrigðisflokkinn, sem þýðir að sú þjónusta sem trans fólk þarf á að halda er álitin spurning um kynheilbrigði,“ segir Ugla.

„Þessi breyting er því frábær, en baráttan er rétt að byrja.“

„Eins og lögin standa í dag er enn notast við kynáttunarvanda (e. gender identity disorder), en í frumvarpi um kynrænt sjálfræði er einmitt notast við kynósamræmi (e. gender incongruance) sem er lýst sem ósamræmi milli þess kyns sem þér var úthlutað við fæðingu og þinnar kynvitundar.

Þetta er stórt skref fyrir réttindabaráttu trans fólks víðsvegar um heim. Þessi breyting er vegna þrotlausrar baráttu trans fólks og samherja þeirra, og þrátt fyrir að þetta sé stórt skref þá er þetta ekki lokaskrefið, þar sem hugtakið sjálft felur í sér ákveðna sjúkdómsvæðingu og er til í því samhengi.“

Baráttan rétt að byrja

„Þessi breyting er því frábær, en baráttan er rétt að byrja og þarf að halda áfram að berjast fyrir því að trans fólk hafi aðgang að þjónustu og sjúkratryggingum á sama hátt og áður, á sama tíma og barist er áfram fyrir því að afsjúkdómsvæða kynvitund trans fólks algjörlega.“ segir Ugla.

Ugla Stefanía, kynfræðingur og formaður Trans Íslands.
Trans Ísland