Talið er að Joe Biden Bandaríkjaforseti muni aflétta banni sem kveður á um að trans einstaklingar megi ekki þjóna í Bandaríkjaher en Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, tilkynnti bannið í júlí 2017 í gegnum Twitter. Þetta hefur CBS eftir heimildarmönnum sínum sem þekkja til málsins.
Hvíta húsið hefur ekki viljað tjá sig um málið Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, greindi frá því í síðustu viku að meðal fyrstu verkefna Biden stjórnarinnar væri að aflétta banninu. Einn hátt settur embættismaður hjá varnarmálaráðuneytinu sagði að tilkynning um málið gæti komið í dag.
Embættismaðurinn sem um ræðir sagði í samtali við CBS að banninu yrði aflétt með forsetatilskipun Bidens. Áætlað er að Biden muni tilkynna málið ásamt nýskipuðum varnarmálaráðherra sínum, Lloyd Austin, en Austin lagði mikla áherslu á að banninu yrði aflétt þegar öldungadeild Bandaríkjaþings tók fyrir skipun hans í embættið í vikunni.
President Biden will reverse the ban on transgender people serving openly in the military “in the coming days and weeks,” White House press sec. Jen Psaki says. https://t.co/CWfhyhGAsi
— NBC Out (@NBCOUT) January 20, 2021
Gagnrýndur fyrir viðhorf sitt í garð hinsegin einstaklinga
Líkt og áður segir tilkynnti Trump bannið á Twitter árið 2017 en það tók gildi í apríl 2019 og þar með var einstaklingum sem glíma við „kynáttunarvanda“ bannað að skrá sig í herinn. Einstaklingar sem ekki glímdu við vandann máttu skrá sig en þá aðeins ef þeir notuðu það kyn sem þeim var úthlutað við fæðingu.
Trump var harðlega gagnrýndur fyrir að vega að réttindum hinsegin og trans einstaklinga en á kjörtímabili sínu gerði hann ýmsar breytingar sem sneru að réttindum hópsins. Meðal annars breytti hann skilgreiningunni á kyni þannig að tryggingafélög geta neitað að veita trans og kynsegin fólki tryggingu.
Biden hefur þegar hafist handa við að snúa við tilskipunum Trumps.