Talið er að Joe Biden Banda­ríkja­for­seti muni af­létta banni sem kveður á um að trans ein­staklingar megi ekki þjóna í Banda­ríkja­her en Donald Trump, fyrr­verandi Banda­ríkja­for­seti, til­kynnti bannið í júlí 2017 í gegnum Twitter. Þetta hefur CBS eftir heimildar­mönnum sínum sem þekkja til málsins.

Hvíta húsið hefur ekki viljað tjá sig um málið Jen P­saki, fjöl­miðla­full­trúi Hvíta hússins, greindi frá því í síðustu viku að meðal fyrstu verk­efna Biden stjórnarinnar væri að af­létta banninu. Einn hátt settur em­bættis­maður hjá varnar­mála­ráðu­neytinu sagði að til­kynning um málið gæti komið í dag.

Em­bættis­maðurinn sem um ræðir sagði í sam­tali við CBS að banninu yrði af­létt með for­seta­til­skipun Bidens. Á­ætlað er að Biden muni til­kynna málið á­samt ný­skipuðum varnar­mála­ráð­herra sínum, Lloyd Austin, en Austin lagði mikla á­herslu á að banninu yrði af­létt þegar öldunga­deild Banda­ríkja­þings tók fyrir skipun hans í em­bættið í vikunni.

Gagnrýndur fyrir viðhorf sitt í garð hinsegin einstaklinga

Líkt og áður segir til­kynnti Trump bannið á Twitter árið 2017 en það tók gildi í apríl 2019 og þar með var ein­stak­lingum sem glíma við „kynáttunar­vanda“ bannað að skrá sig í herinn. Ein­staklingar sem ekki glímdu við vandann máttu skrá sig en þá að­eins ef þeir notuðu það kyn sem þeim var út­hlutað við fæðingu.

Trump var harðlega gagnrýndur fyrir að vega að réttindum hinsegin og trans einstaklinga en á kjörtímabili sínu gerði hann ýmsar breytingar sem sneru að réttindum hópsins. Meðal annars breytti hann skilgreiningunni á kyni þannig að tryggingafélög geta neitað að veita trans og kynsegin fólki tryggingu.

Biden hefur þegar hafist handa við að snúa við tilskipunum Trumps.