Enn eru viðvaranir, gular, appelsínugular og síðar rauðar, í gildi á landinu öllu. Allsstaðar er mjög hvasst og hafa viðbragsðaðilar sinnt fjölda útkalla í nótt vegna foks. Í tilkynningu frá Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að engin stórtjón hafi verið en að þeir hafi aðstoðað við þakplötur og trampólín sem voru að fjúka.

Þá hafa sjúkrabílar þeirra farið í alls 92 útköll síðasta sólarhringinn og dælubílar í sjö, flest vegna veðurs.

Öflug lægð

Á vef Veðurstofunnar kemur fram að sérlega öflug lægð sé nú stödd norður fyrir land sem sendi norðvestan vindstreng yfir austurhluta landsins sem muni valda aftakaveðri þar, en klukkan tólf tekur þar gildi rauð viðvörun.

„Slík viðvörun er ekki gefin út nema um hættulegt veður sé að ræða og því er mikilvægt að sleppa ferðalögum og huga að eigin öryggi. Það ber að taka það skýrt fram að vestanvert landið sleppur við óveður í dag, þar lægir vind með morgninum og skaplegt veður eftir hádegi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Á Suðausturlandi má búast við einhverju vegalokunum að því er kemur fram á vef Vegagerðarinnar og á Vestfjörðum og Vesturlandi hefur verið nokkuð um hrun úr hlíðum.