Sögusagnir hafa gengið um að Toyota hyggist hætta framleiðslu GT86 sportbíls síns en nýjustu raddir úr herbúðum Toyota segja til um annað. Þar á bæ er nú verið að hyggja að næstu kynslóð bílsins, þó svo að Toyota hafi nýverið kynnt Supra sportbílinn. Toyota GT86 er allt öðruvísi bíll, með aðra eiginleika og fyrir annan kaupendahóp og talsvert ódýrari bíll. Toyota vill hafa í sinni bílaflóru svona stefnumarkandi bíla sem styrkir ímynd fyrirtækisins og er með í skoðun þriðju gerð sportbíls sem yrði minni bíll en þessir báðir. 

Toyota myndi áfram þróa nýja kynslóð GT86 í samstarfi við Subaru og líklega verður hann áfram smíðaður að mestu hjá Subaru og með Subaru vél. Toyota GT86 kom á markað árið 2012 samhliða systurbílnum Subaru BRZ og báðir bílarnir eru með 205 hestafla fjögurra strokka Subaru boxer vél. Sala Toyota GT86 hefur ekki gengið sem best undanfarið og féll salan til dæmis í Bandaríkjunum í fyrra um 39,4% og seldust þar aðeins 4.146 bílar og Subaru BRZ seldist í 3.834 eintökum og féll sala hans um 7,2%. Toyota sér GT86 ekki sem massasölubíl, heldur fremur sem góða ímynd og „halo“ bíl.