Toyota og Suzuki hafa átt í samstarfi síðastliðin 2 ár en tóku enn frekara skref í þá átt með kaupum á hlutabréfum hvort í öðru fyrir skömmu. Toyota keypti 5% hlutabréf í Suzuki fyrir um 110 milljarða króna og Suzuki keypti að sama skapi hlutabréf í Toyota fyrir um helmingi minni upphæð. Samstarf Toyota og Suzuki lítur að sameiginlegri þróun rafmagnsbíla, sjálfakandi tækni og til að uppfylla þörf almennings á svokallaðri „on-demand“ skutlbílum sem kemur fólki á milli staða A til B. Toyota á einnig í samstarfi við Mazda og Subaru og á hluti í báðum þeim fyrirtækjum.

Eins og hinn nýlega látni fyrrum forstjóri Fiat Chrysler, Sergio Marchionne, þreyttist ekki á að segja þá eru of margir bílaframleiðendur að gera algjörlega sömu hlutina og því sé rétt að bindast böndum og minnka með því kostnað við þróun nýrrar tækni og það er einmitt það sem Toyota og Suzuki eru að gera nú.

Samstarf bílaframleiðenda eykst

Hlutabréf í Suzuki hafa lækkað um 27% á þessu ári eftir að helsti markaður Suzuki fyrir bíla, Indland, kólnaði verulega, en þar hefur orðið 15% samdráttur í sölu bíla í ár. Samstarf Toyota og Suzuki nú, sem og með Mazda og Subaru er alls ekki einsdæmi um nýlegt samstarf bílaframleiðenda. Volkswagen og Ford hafa undirritað slíkt samstarf og General Motors og Honda einnig. Þá er samstarf og krosseignarhald Renault, Nissan og Mitsubishi líka þekkt.

Samstarf Toyota með Suzuki tryggir Toyota einnig auðveldari innkomu á bílamarkaðinn í Indlandi sem er á góðri leið með að skáka Japan sem þriðji stærsti bílamarkaður heims. Suzuki selur um helming allra bíla sem seldir eru í Indlandi og hefur til langs tíma verið ráðandi bílaframleiðandi þar.