Highlander er í flokki E-SUV bíla þar sem Land Cruiser hefur verið áberandi hér á landi undanfarna áratugi. Með þessu skrefi býður Toyota upp á enn fleiri lausnir í einum kröfuharðasta flokki bíla á Íslandi með tæknilega vönduðum og rúmgóðum Hybrid sportjeppa. Tvö niðurfellanleg sæti eru aftast í bílnum og er því pláss fyrir sjö í Highlander. Toyota Highlander Hybrid er með AWD-I fjórhjóladrif og verður í boði í þremur útfærslum, GX, VX og Luxury. Highlander er knúinn áfram af fjórðu kynslóð Hybrid tækninnar auk bensínvélar sem skilar samanlagt 244 hestöflum. Eyðslan er samt hófleg eða frá 5,8 – 8,2 lítrar á 100 km. Toyota Highlander er 4.950 mm langur með 658 lítra farangursrými. Auðvelt er að fella niður tvær sætaraðir og mynda þannig 1.909 lítra farangursrými með sléttu gólfi. Highlander er búinn Toyota Safety Sense 2.5 sem er nýjasta útgáfa af öryggiskerfi Toyota.