Toyota setti Yaris Cross á markað í Evrópu fyrir skemmstu og stutt er síðan Toyota Highlander fór á Evrópumarkað, en hann hafði aðallega verið seldur í Bandaríkjunum og Ástralíu. Yfirmenn hjá Toyota hafa líka leitt að því getum að von sé á jepplingi í þessari stærð fyrir Evrópumarkað. Fyrir er C-HR jepplingurinn sem höfðar ekki til allra í kaupendahópi millistærðarjepplinga. Til dæmis er skottið í CH-R aðeins 377 lítrar meðan að Corolla Cross státar af 487 lítrum. Toyota Corolla Cross er byggður á GA-C undirvagninum sem er sá sami og er undir Corolla. Algengasta vélin er 1,8 lítra bensínvél og hægt er að fá hann í tvinnútgáfu sem skilar 120 hestöflum. Í Japan verður hægt að fá hann með fjórhjóladrifi þar sem að afturdrifið er með rafmótor, líkt og í nýjum Yaris Cross. Einnig er tveggja lítra tvinnútgáfa sem skilar 181 hestafli.