Electrek-veftímaritið hefur nú flutt fréttir af bréfi sem Toyota hefur sent eigendum bZ4X-bíla, þar sem að Toyota biður þá um að bíða með að aka bílnum sínum. Einnig býður Toyota upp á nokkrar lausnir fyrir eigendur bílanna, eins og afslátt í formi endurgreiðslu, áframhaldandi notkun lánsbíls, greiðslu fyrir geymslu á bZ4X-bílunum, ókeypis hleðslu þeirra í náinni framtíð auk meiri ábyrgðar. Ef ekkert af þessu er nóg, býðst Toyota til að kaupa aftur bílana. Slíkar endurgreiðslur geta verið framleiðendum erfiðar en þar sem um fáa bíla er að ræða hefur Toyota líklega metið að það sé í lagi. Enginn bZ4X er kominn á göturnar hérlendis enda var frumsýningu hans frestað um leið og fréttir bárust af þessu, þar til að Toyota hefur komist fyrir vandamálið.