Aygo var bíll sem áður var hannaður í samstarfi við Citroen og Peugeot, en nú er það samstarf fyrir bí. Kemur Aygo X því á smækkaðri útgáfu af TNGA-B undirvagninum sem er undir Yaris. Með því næst fram 125 mm breiðari bíll en áður en hjólhaf hans hefur einnig aukist um 90 mm. Nokkuð augljóst er að veghæðin hefur aukist en bíllinn mun nú einnig koma á 17 tommu felgum sem staðalbúnaði. Aygo X er 3.700 mm langur sem er 235 mm lengra en Aygo var. Það hjálpar til dæmis við að stækka farangursrýmið sem nú er orðið 231 lítri.

Allt að níu tommu upplýsingaskjár er í miðjustokki sem getur tengst öllum gerðum snjallsíma.

Vélin í Aygo X verður eins lítra bensínvél sem skilar 71 hestafli og 93 Nm togi. Sex gíra beinskipting verður staðalbúnaður en einnig verður hægt að fá hann með CVT sjálfskiptingu. Engar áætlanir eru um að koma með tvinnútgáfu af Aygo eins og er, þrátt fyrir að TNGA-B undirvagninn leyfi það í Yaris. Sá búnaður tekur pláss sem ekki er auðvelt að finna í smábíl sem þessum. Innan í bílnum verður 7 til 9 tommu upplýsingaskjár eftir hvaða útgáfa er í boði. Allar útgáfur verða með Apple CarPlay og Android Auto. Einnig verður Toyota Safety Sense árekstravörnin staðalbúnaður. Toyota Aygo X verður aðeins seldur í Evrópu og verður því framleiddur í Tékklandi þar sem Aygo, C1 og 108 bílarnir voru framleiddir. Áætlað er að bíllinn fari í sölu næsta vor og verð hans mun að öllum líkindum hækka eitthvað frá fyrri gerðum.