Það kom ýmsum spánskt fyrir sjónir á bílasýningunni í Genf að sjá á pöllum Volkswagen Touareg jeppann með V8 dísilvél í kjölfar disilvélaskandals Volkswagen um árið. Á pöllunum í Genf voru aðallega nýir rafmagnsbílar og sparneytnir tengiltvinnbílar og því stóð þessi Touareg nokkuð út úr fjöldanum. 

Aðspurðir sögðu forsvarsmenn Volkswagen að Touareg yrði líklega síðasti bíll Volkswagen sem fengi V8 díslvél, en í Touareg bílnum er þessi vél 419 hestöfl og mengar eftir því. Að minnsta kosti yrði þetta síðasti bíllinn frá Volkswagen sem boðinn verður í Evrópu með slíkri vél. 

Volkswagen er eins og kunnugt er að einblína mjög þessa dagana á rafmagnsbíla og tengiltvinnbíla svo það má eðlilegt teljast að margir hafi rekið upp stór augu við tilvist þessa Touareg V8 dísilháks á sýningunni. Hann mun engu að síður gleðja margan áhugamanninn um öfluga bíla.