Íslenski gyðingasöfnuðurinn fékk í síðustu viku afhenta Torah rollu að gjöf. Avi Feldman rabbíni segir þetta einstaklega mikilvægt því Torah sé undirstaða hvers gyðingasamfélags.

„Torah er biblían, handskrifuð á fornhebresku, á pergamenti sem hvert samfélag gyðinga verður að eiga. Við lesum og lærum úr Torah og það gefur okkur andagift, gildi og leiðsögn,“ segir Feldman. „Torah skilgreinir okkur sem þjóð.“

Segir hann Torah eins konar stjórnarskrá gyðinga, sem eru ekki þjóðríki. Gyðingar hafi orðið þjóð áður en þeir áttu land.

Gjöfin kom frá svissnesku hjónunum Adinu og Uri Krausz, í tilefni af 50 ára afmæli Uri, en þau eru búsett í borginni Zürich. Komu þau til Íslands til þess að afhenda gjöfina með viðhöfn.

„Þau vildu gera eitthvað sérstakt og ákváðu því að gefa Torah til safnaðar sem þarfnaðist ritsins. Af einhverjum ástæðum völdu þau okkur og við erum vitaskuld afar þakklát,“ segir Feldman.

Torah er engin smásmíði í framleiðslu og það tekur heilt ár að skrifa rolluna upp. Feldman getur ekki nefnt neina ákveðna tölu hvað rollan kostar, en það samsvari heildarárslaunum einnar manneskju. „Síðasti stafurinn var ritaður hérna á Íslandi, sem hefur sérstaka merkingu fyrir okkur.“

Það tekur nokkra þjálfun að lesa úr rollunni, en textarnir eru einnig til í venjulegum prentuðum bókum. Rollan er aðeins notuð þegar söfnuðurinn kemur saman, svo sem í athöfnum og á helgidögum okkar.

Feldman, sem er upprunalega frá Brooklyn í New York, kom til landsins með fjölskyldu sinni vorið 2018. En fram að því hafði ekkert utanumhald verið um samfélag gyðinga á Íslandi, sem er mjög fámennt. Feldman segir að verið sé, í samstarfi við lögmann, að koma því í kring að söfnuður gyðinga verði skráður sem trúfélag. En það er meðal annars forsenda fyrir því að hægt sé að afla sóknargjalda.

„Við erum búin að fylla út alla pappíra og skila þeim inn. Lögmaður okkar býst við því að þetta verði samþykkt í næsta mánuði,“ segir Feldman.

Félagið fékk 25 meðmælendur, sem er lágmarksfjöldi til þess að sýslumaður geti staðfest það. Meðmælendurnir þurfa hins vegar ekki að vera skráðir í félagið og Feldman segist ekki vita hversu stór söfnuðurinn verður.