Björk Eiðsdóttir
bjork@frettabladid.is
Laugardagur 11. desember 2021
13.00 GMT

Enda þótt þau Máni Pétursson og Fanney Birna Jónsdóttir hafi sagt skilið við umræðuþættina Harmageddon og Silfrið í haust gefa þau engan afslátt af skoðunum sínum á samfélagsmálum.


Hvað stendur upp úr þegar litið er yfir árið 2021?

Fanney: „Rétt eins og síðasta ár hafði Covid mikil áhrif. En það er eins og það sem gerðist, sérstaklega fyrripart árs, hafi bara gerst í annarri vídd, á annarri öld. Ég man að Kári var í einhverju debatti við sænska sóttvarnalækninn um hvernig okkur myndi ganga að bólusetja þjóðina, hvort það yrði búið fyrir sumarið. Svo eru bara allt í einu flestir þríbólusettir.“

Máni: „Instagram-mómentin sem verða tekin fyrir í Skaupinu eru af bólusetningum og eldgosinu. Það var eins og enginn hefði farið í bólusetningu án þess að hafa deilt því með okkur á netinu.“


Sóttvarnaaðgerðir ...


Máni: „Íslendingar elska yfirvaldið og horfa því á þá sem eru á móti sóttvarnaaðgerðum sem skrítið fólk, þá sem eru að berjast fyrir frelsi. Hún sást í kosningunum, þessi foringjahollusta.“

Fanney: „Við erum öll íhald. Við erum náttúrlega bara mismunandi Shades of Grey af Framsóknarflokknum, það er bara svoleiðis.“

Máni: „Íslendingar eru allir Framsóknarmenn, ef það er eitthvað sem þessar kosningar sýndu okkur, þá er það það.“

MeToo ...

Máni: „MeToo-byltingin sem kom upp núna var að einhverju leyti heiftúðugri en fyrri – en það voru líka alveg ástæður fyrir því. Það hafði ekki mikið breyst frá síðustu MeToo-byltingu og fólk er einhvern veginn búið að fá algjörlega fokking nóg.“

Fanney: „Í fyrri byltingunni voru það hópar kvenna sem stigu fram nafnlaust. Þær voru að blamm­era heilu stéttirnar: „Sjáið hvað við þurfum að díla við!“ Í fáum tilfellum var einhver nafngreindur. En núna eru þetta konur, að mestu leyti ungar konur, að stíga fram og nafngreina ákveðna karlmenn sem hafa brotið á þeim. Eðli málsins samkvæmt verður það heiftúðugra – en kröftugra að sama skapi.“

Máni: „Þetta verður það. Í fyrstu MeToo-byltingunni voru allir að taka þátt með hasstöggin sín og allt að frétta en síðan var ekkert gert. Þess vegna stöndum við frammi fyrir þessu öllu núna. Og þetta verður ekkert skárra fyrr en einhver stjórnmálamaður ákveður að snúa þessari þróun við. Koma því þannig fyrir að hægt sé að ákæra í þessum málum, fá sekt þar sem við á og sýknu þar sem við á.“

Fanney: „Mér finnst rosa leiðinlegt þegar þessu málefni er stillt upp sem einhverjum öfgum. Og guð blessi stelpurnar í Öfgum og alla þá sem hafa talað með öfgafullum hætti í gegnum tíðina. Við værum ekki hér að ræða þetta ef ekki væri fyrir þær. En þú þarft ekkert að vera rosalega öfgafullur til að vera á þeirri skoðun að það séu brotalamir í þessum málaflokki og það hreinlega verði að gera eitthvað.“

Máni: „Allt þetta dæmi mun á endanum búa til betra samfélag. En stjórnmálamenn á Íslandi virðast uppteknir af einhverju allt öðru. Þeir eru til í að hoppa á alla vagna en gera svo ekki rassgat. Þetta er algjörlega verklaust fólk. Það er hægt að telja á fingrum annarrar handar það fólk á þingi sem gæti þegið sömu laun úti á hinum almenna vinnumarkaði. Enda er þetta fólk búið að vera duglegt við að skammta sér hærri laun og það eru bara fimmtán prósent þingmanna á venjulegum launum.

Gerandinn er alltaf sökudólgurinn en má ekki alveg segja að þetta sé líka samfélaginu, stjórnmálamönnum og lögreglunni að kenna? Reyndar er þetta ekki lögreglunni að kenna nema að því leyti að hún er fjársvelt. Það mætti til dæmis nota þessa 2,8 milljarða sem þingflokkarnir hafa skammtað sér í það að styrkja lögregluna og rannsóknir á svona málum.“


„Það mætti til dæmis nota þessa 2,8 milljarða sem þingflokkarnir hafa skammtað sér í það að styrkja lögregluna og rannsóknir á svona málum.“

Máni


Fanney: „Það eru margir óbeinir og beinir gerendur í þessum málum. Við öll sem höfum kóað með alls konar hegðun í gegnum tíðina, svo þeir sem viljandi eru að brjóta á konum eða styðja slíka menn.“

Máni: „Þetta er líka vegna þess að samfélagið er svo lítið.“

Fanney: „Já, já, en við getum ekki skýlt okkur endalaust á bak við það.“

Máni: „Nei, nei, við getum ekki gert það. Mér finnst þó skrítið þegar verið er að kalla fólk inn í umræðuna. Það er eins og við eigum öll að vera þátttakendur í allri umræðu og pósta því á samfélagsmiðlum. Við megum alveg hafa skoðanir án þess að opinbera þær.“

Fanney: „Við Máni erum partur af þeim þjóðflokki sem hugsar allt of lítið áður en hann talar. En við biðjumst þá bara vægðar ef við segjum eitthvað vitlaust. Ég held þó að það sé betra að við tölum og segjum það sem okkur finnst og rekum okkur þá bara á og bökkum, frekar en að hætta því.“

Máni: „Mér þykir leiðinlegt að segja það en ég held að það þurfi 10–15 MeToo-byltingar í viðbót svo fólk nái kjarna málsins. Kannski vegna þess að fólk er meira til í að taka þátt í umræðunni en að gera eitthvað og á ég þá við stjórnendur í þessu landi.“

Fanney: „Í femínískri umræðu erum við líka að tala um vandamál feðraveldisins aftur til upphafs mannkyns og ég held að alveg sama hvað ríkisstjórnin gerir þá þurfi viðhorfsbreytingin, ekki bara hér heldur alls staðar, að vera svo gríðarleg að þetta er eins og olíutankskip sem snúa þarf við í Panamaskurðinum. Það tekur bara tíma og það er auðveldara að vera þolinmóðari þegar maður er orðinn snemmmiðaldra eins og ég. En ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem ætla ekki að bíða. Vonandi hreyfa þær skipið hraðar.“


„En ég tek hatt minn ofan fyrir þeim sem ætla ekki að bíða. Vonandi hreyfa þær skipið hraðar.“

Fanney


Útilokunarmenning ...

Fanney: „Mér finnst líklegt að í þessum málum þar sem útilokunarmenning í tengslum við MeToo hefur snert við einhverjum, þá hafi þetta ekki verið þannig undirmálsfólk að það sé líklegt til að verða undir mjög lengi. Ég held að oftast eigi fólk afturkvæmt í þessu samfélagi.“

Máni: „Við verðum samt að passa okkur í allri orðræðu. Það er dýrt að taka mannorð einhvers ef hann á það ekki skilið. Við eigum að hugsa það áður en við setjum eitthvað út á netið. Fólk sem slúðrar um annað fólk er upp til hópa drullusokkar. Maður á ekki að tala nema út frá staðreyndum. Ef þessi umræða á öll að fara fram á samfélagsmiðlum erum við aldrei að fara að gera þetta að betra samfélagi. Samfélagsmiðlar ganga út á átakalínur. Viðskiptamódel þeirra snýst um það.“

Fanney: „Á sama tíma og ég er sammála þá held ég að þetta sé svo mikið valdeflingartól fyrir þá sem hafa verið beittir ofbeldi af kerfinu eða persónulega af einhverjum öðrum, til að ná vopnum sínum. Hvíslhringur kvenna hefur virkað sem forvörn og haldið lífi í konum: „Passaðu þig á hinum og passaðu þig á þessum.““

Máni: „Þetta er ekki beint slúður, því þarna er verið að byggja á reynslu.“

Fanney: „Það er ekki alltaf þín eigin reynsla, oft ertu að byggja á reynslu einhverrar annarrar sem getur kannski ekki talað sjálf. Þetta er rosalega grátt svæði. En það þarf að passa að umræðan verði ekki bara þarna og festist ekki í einhverjum skotgröfum.“

Máni: „Við eigum ekki að vera í einhverri óvild. Þetta hlýtur að vera eitthvað sem samfélagið þarf að laga. Ég skil ekki að einhver sé eitthvað á móti því að hér ríki réttlátara samfélag.“


„Ég skil ekki að einhver sé eitthvað á móti því að hér ríki réttlátara samfélag.“

Máni


Eldgos í Geldingadölum ...

Genguð þið upp að því?

Máni: „Nei.“

Fanney: „Ekki ég heldur. Ætli við séum ekki bara tvö eftir?“

Máni: „Ég tók ekki heldur mynd af mér í bólusetningu.“

Fanney: „Ég tók mynd af mér í fyrstu bólusetningu. Ég var svo mass­ívt peppuð.“

Máni: „Þetta er eins og flugfreyjurnar sem voru svo ánægðar með að vera flugfreyjur að þær létu allar taka mynd af sér uppi í hreyflinum. Kannski náðum við svo góðri bólusetningu hér á landi því allir vildu ná að birta bólusetningarmynd af sér?“

Fanney: „Ég var bara að taka mynd því ég var ógeðslega glöð og hélt að þetta væri þar með búið.“

Máni: „Það skal enginn ljúga því að það voru ákveðin vonbrigði að bóluefnin skyldu ekki hafa virkað og við þurfum bara að bíða í þessu þrjú, fjögur ár á meðan heimsfaraldur gengur yfir.“


Samkomutakmarkanir ...


Máni: „Þegar rafmagnið fór af þegar maður var lítill hljóp maður alltaf út í glugga til að athuga hvort það hefði líka farið af hjá nágrönnunum. Á einhvern furðulegan hátt leið manni betur ef rafmagnið fór ekki bara hjá manni sjálfum heldur hjá öllum í hverfinu. Þannig er Covid. Við erum öll í þessu Covid-myrkri.

Ég ætla að þakka ríkisstjórninni fyrir hraðprófin. Fólk ársins er klárlega fólkið sem hefur nennt að standa í röðum í skítakulda til að láta troða eyrnapinna upp í nefið á sér og mæta á viðburði. Þetta fólk heldur menningarlífinu í landinu gangandi.“

Fanney: „Ég er búin að vera ein af vitleysingunum í þessari röð.“

Máni: „Hetjunum!“

Máni: „Það eina sem böggaði mig mest í þessu öllu var þessi andlýðræðislega regla þegar tekið var upp á því að Íslendingar þyrftu að koma með neikvætt próf til landsins. Það var virkilega ógeðfelld aðgerð að ætla að fara að skilja íslenska ríkisborgara eftir úti.“

Fanney. „Án þess að ég ætli að tjá mig um einstakar aðgerðir ríkisstjórnarinnar þá finnst mér skipta máli að bera virðingu fyrir þeim sem setja fyrirvara við valdboð og þegar verið er að beygja mannréttindi.“

Framhaldið ...


Máni: „Það þarf að gera upp alls konar hluti að þessu loknu. Krakkar sem eru fæddir 2003 og eru að útskrifast úr menntaskóla, þau hafa ekki eignast nýja vini og félagsleg tengsl eins og við gerðum. Þetta þarf að gera upp á næstu árum og eins gott að stjórnvöld komi þar sterk inn.

Fanney: „Sumir hafa bara ekkert fengið að vera í menntaskóla, fara á böllin og í sleikinn. Ég bara geri ráð fyrir því að tugir hjónabanda verði ekki vegna þessa.“


„Sumir hafa bara ekkert fengið að vera í menntaskóla, fara á böllin og í sleikinn."

Fanney


Máni: „Þetta er eitthvað sem ekkert var hægt að gera í en við verðum að finna út hvernig við ætlum að leysa þetta.“

Fanney: „Oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn að stíga skrefin í að niðurgreiða sálfræðiþjónustu á sem flestum sviðum.“


Kári Stefáns ...


Fanney: „Við tölum oft um að við elskum að hata einhvern en ég held að íslenska þjóðin hati að elska Kára Stef. Við elskum hann en eigum samt svo erfitt með hann. Hann hefur unnið gríðarlega mikilvægt starf fyrir þjóðina og oft verið þessi andspyrnurödd.“


Máni: „Bæði Kári og Þórólfur hafa verið tilbúnir að ræða hlutina og svara þeim spurningum sem maður spyr þá. Kári hefur peppað þjóðina meira á erfiðum tímum heldur en þjóðin hefur gefið honum kredit fyrir. Hann hefur alltaf verið sanngjarn í sinni gagnrýni. Hann hefur hrósað ríkisstjórninni fyrir það sem er vel gert en líka látið hana heyra það þegar það þarf. Ég held bara að þjóðin ætti að vera meira eins og Kári.“


„Ég held bara að þjóðin ætti að vera meira eins og Kári.“

Máni


Fanney: „Kári mætti stundum anda aðeins meira með nefinu en hann er litríkur og þorir að segja hvað honum finnst – alveg sama hver það er í það skiptið sem mun finna fyrir því.“

Máni: „Ég held að Þórólfur sé gríðarlega þakklátur fyrir Kára, því Kári má segja það sem Þórólfur getur ekki sagt – en kannski langar.“


Bubbi Morthens ...


Máni:
„Bubbi er orðinn stofnun. Í Covid fór hann að selja verkin sín, gerði þessa leiksýningu og gaf út frábæra plötu. Mér finnst Bubbi stórkostlegur.“

Fanney: „Talandi um útskúfunarkúltúrinn þá finnst mér Bubbi hafa leyfi til að tjá sig og misstíga sig. Við erum svo fljót að fyrirgefa Bubba. Stundum hittir hann akkúrat naglann á höfuðið en stundum er hann doldið skakkur en þá kemur hann oftast bara og segir: „Ég var bara ekki búinn að hugsa þetta alveg – sorry með mig.“ Þá er maður bara: „Allt í lagi, Bubbi minn.“

Maður finnur það að hann er alltaf á einhverri vegferð til að bæta sig. Hann biðst fyrirgefningar ef hann þarf og fær hana eiginlega alltaf. Þannig virkar líka heilbrigt samfélag, svo framarlega sem þú ert ekki að gera hræðilega hluti máttu misstíga þig og biðjast fyrirgefningar ef þess þarf.“


„Stundum hittir hann akkúrat naglann á höfuðið en stundum er hann doldið skakkur en þá kemur hann oftast bara og segir: „Ég var bara ekki búinn að hugsa þetta alveg – sorry með mig.“ Þá er maður bara: „Allt í lagi, Bubbi minn.“

Fanney


Máni: „9 Líf er er stórkostleg sýning.“

Fanney: „Fórst þú að gráta yfir henni? Ég þekki engan sem ekki hefur farið að gráta.“

Máni. „Nei.“

Fanney: „Varstu nálægt því?“

Máni: „Nei, ég græt yfir öðruvísi hlutum. En þetta var frábært stöff.“


Plastpokabannið ...

Fanney: „Það sem hafði mest áhrif á mig á árinu var plastpokabannið. Nú er ég með svo mikið af pappapokum heima hjá mér því ég get ekki munað eftir því að taka með mér fjölnotapoka í búðina enda með sjálfgreindan áunninn ADHD.“

Máni: „Plast er per se ekki slæmt heldur hvernig við nýtum það eða notum. Þetta var fallegt sjálfsprottið verkefni hjá Rakel Garðars á sínum tíma og gott að fólk fór að spá í plastnotkun sína en þá ákveða pólitíkusarnir að stíga inn með einhverjum boðum og bönnum sem ég er alfarið á móti. Það má líka benda á hversu skaðlegt það var fyrir íþrótta- og listalífið að pokasjóður var lagður af. Það er ekki búið að sanna fyrir mér að það hafi verið góð hugmynd að taka út þessa plastpoka.“


„Það er ekki búið að sanna fyrir mér að það hafi verið góð hugmynd að taka út þessa plastpoka.“

Máni


Alþingiskosningar ...

Máni: „Ég barðist fyrir því að fólk myndi skila auðu í þessum kosningum. Ísland er að verða minna og minna lýðræðisríki. Við ætlumst til þess að fjölmiðlar séu fjórða valdið og veiti aðhald en staðreyndin er aftur á móti sú að þingmenn eru á helmingi hærra kaupi en meðal blaðamaður.

Styrkir til frjálsra fjölmiðla voru 800 milljónir en styrkir til stjórnmálaflokka 2,8 milljarðar. Þetta fólk á þinginu talar eins og þetta sé í nafni einhvers lýðræðis. Þetta er náttúrlega ekki í nafni neins lýðræðis. Stjórnmálamenn eru hættir að fá nokkra gagnrýni í fjölmiðlum – við erum alltaf bara að sjá þá í einhverjum spurningaþáttum og svo framvegis. Þetta er fólk sem á að svara fyrir það sem það gerir í starfi.“

Fanney: „Ég tek að mestu leyti undir þetta. Launin fara ekki hrikalega í taugarnar á mér en skömmtunin til flokkanna gerir það. Á þessu kjörtímabili var starfsmönnum flokkanna fjölgað og ég sá það fallega fyrir mér sem tækifæri fyrir flokkana til að rannsaka betur hvað þeir væru að gera og væru með fólk sem myndi undirbúa frumvörp og fleira. Í staðinn eru bara enn fleiri að setja efni á Instagram og búa til podköst.

Ég gæti eiginlega ekki tekið meira undir varðandi stöðu fjölmiðlanna og sérstaklega þá einkareknu. Það eru ótrúleg vonbrigði að það frumvarp hafi ekki verið hnitmiðaðra því ég held að bæði stóru og minni einkareknu fjölmiðlarnir þurfi mikinn stuðning. Það er það versta sem kemur fyrir minn fyrrverandi vinnustað, Ríkisútvarpið, að það séu ekki jafnsterkir aðilar að bjóða upp á svipaða og sambærilega vöru. Þetta er að öllu leyti versta mál.“


„Það er það versta sem kemur fyrir minn fyrrverandi vinnustað, Ríkisútvarpið, að það séu ekki jafnsterkir aðilar að bjóða upp á svipaða og sambærilega vöru."

Fanney


Máni: „Fyrir mér er þetta alvarlegra mál en klúðrið í Norðvestur kjördæmi. Fjölmiðlar brugðust í þessu máli því fjölmiðlar þora aldrei að tala um sjálfa sig. Kosningabaráttan fór bara ekki í neitt."

Fanney: „Mér finnst reyndar talningin í Norðvestur stórkostlega alvarlegt mál og ég vona að það verði lagst grundigt yfir kosningalögin. Ég hef unnið í kosningum og áttað mig á því að eitt atkvæði til eða frá verður líklega alltaf rangt þegar mannshöndin kemur þar að.

En þetta var bara svo miklu meira og svo mikill hroki sem fylgdi þegar síðan kom að útskýringum. Svo var þetta bara eins og einhver Tvíhöfða­skets þegar rannsóknarnefndin með Birgi Ármanns í fararbroddi fór þarna einhverjar 20 ferðir.

Máni: „Það var líka magnað hvernig Sjálfstæðisflokkurinn fékk alla til að samþykkja að einhverju leyti að þeir ætli að fara að virkja hérna eins og enginn sé morgundagurinn og töluðu um það í nafni umhverfisnefndar. Þeir ætla að rafbílavæða en það verður ekki gert á Íslandi nema hér verði virkjað miklu meira. Því hefði umræðan átt að fara í það að búa til almennilegar samgöngur í þessu landi. Ég verð að gefa þeim prik fyrir það – þetta var frábært múv hjá þeim.“

Fanney: „Mér fannst þetta ógeðslega skemmtileg kosningabarátta. Ég hafði sagt í öllum spjallþáttum sem ég var boðuð í að þær væru að fara að enda langt til vinstri en nei, nei!“

Máni: „Það er náttúrlega engin hægri sveifla á Íslandi.“

Fanney: „Nei, en ég hélt að þetta yrði meira afgerandi til vinstri og var alveg hörð á því að Sósíalistaflokkurinn kæmist inn og jafnvel með nokkra þingmenn.“

Máni: „Það var kannski erfitt fyrir Sósíalistaflokkinn að komast inn þegar Sjálfstæðismenn, Vinstri græn og Framsókn eru að reyna að breyta íslensku samfélagi í sósíalistaríki. Við sjáum að fjölgun opinberra starfsmanna er orðin það mikil að ef þessi þróun heldur áfram eru allar líkur á að hér verði gríðarlegt efnahagshrun og við breytumst í Venesúela.“

Fanney: „Það er svo skemmtilegt hvað vinstrimennska þín er alltaf ófyrirsjáanleg.“

Máni: „Verðmæti verða ekki búin til í ríkinu, það þarf að gerast í einkageiranum. Þessir þrír vinstri flokkar sem nú stjórna landinu sýna að það er þörf á hægri stjórn.“


Árið 2022 ...


„Ég veit ekki hvort það sé hluti þess að eldast eða hvað en mér finnst hvert ár betra en síðasta, kannski bara því ég er hamingjusamari. Ég held að það verði áfram Covid-vesen og reiði en ég held að þetta verði ekkert verra. Þetta verður frábært ár.“


„Ég veit ekki hvort það sé hluti þess að eldast eða hvað en mér finnst hvert ár betra en síðasta, kannski bara því ég er hamingjusamari."

Máni


Fanney: „Ég sá þetta ár fyrir mér sem árið sem Covid myndi klárast og maður gæti haldið áfram með líf sitt, þannig ég ætla núna bara að búast við því sem úr varð. Það komi jafnvel bylgjur, en minni og vonandi veikist fólk minna. En ég býst við takmörkunum og að við verðum kannski ekki mikið í útlöndum.“

Máni: „Ég verð að komast á Leeds- leik. Það er það eina sem ég fer fram á.“

Fanney: „Annars er ég pínu á sama stað og Máni, ég á tæplega þriggja ára stelpu og það er allt betra með henni og ég held að næsta ár verði engin undantekning á því.“


„Annars er ég pínu á sama stað og Máni, ég á tæplega þriggja ára stelpu og það er allt betra með henni og ég held að næsta ár verði engin undantekning á því.“

Fanney


Máni: „Ég er á hverjum degi glaður yfir því að synir mínir tveir séu ekkert líkir föður sínum.“


Fanney: „Dóttir mín er alveg eins og ég – það er viðfangsefni.“

Athugasemdir