DV hefur sætt harðri gagn­rýni vegna greinar sem birtist í nýjasta tölu­blaði þeirra. Í greininni sjást myndir af húsum þekktra tón­listar­manna á Ís­landi og eru þar einnig birtar upp­lýsingar um húsa­leigu, fast­eigna­mat og fer­metra­fjölda. Fram kemur að margar af stjörnum landsins búi í for­eldra­húsum.

Þau sem fjallað er um í blaðinu eru tón­listar­mennirnir, Auður, Young Karin, Aron Can, Herra Hnetu­smjör, Birgir Hákon, Una Schram, Flóni, Birnir, GDRN og Bríet.

Lilja Katrín Gunnarsdóttir, ritstjóri Frjálsrar fjölmiðlunar ehf, er höfundur umræddrar greinar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Snið­ganga sorp­miðil

Þó nokkrir lista­menn hafa hvatt fylgj­endur sína til að snið­ganga DV á Insta­gram síðum sínum og hefur myllu­merkið #sorp­miðill sést víða á svo­kölluðu story svæði miðilsins. Ein­hverjir hafa sömu­leiðis birt mynd af húsi Lilju Katrínar Gunnars­dóttur, rit­stjóra DV, sem er höfundur greinarinnar, meðal annarra Herra Hnetu­smjör sjálfur, Aron Már Ólafs­son og rapparinn Birgir Hákon.

Þre­menningarnir birtu einnig síma­númer Lilju og hvatti Birgir Hákon fylgj­endur sína á Insta­gram ein­dregið til að hringja í rit­stjórann og segja henni hvað þeim fyndist um greinina.

DV birtir reglulega greinar í blaði sínu sem upplýsa lesendur um hvar þekktir Íslendingar búa, síðasta dæmi þess er þegar birtar voru myndir af húsum eigenda Samherja.

Ekki náðist í Lilju Katrínu við gerð fréttarinnar.

Hér má sjá mynd úr smiðju Arons Más Ólafsonar.
Mynd/Instagram