Lög tónlistarmannsins Auðuns Lútherssonar, einnig þekktur sem Auður, verða ekki spiluð á helstu útvarpsstöðvum landsins á næstunni vegna fjölda ásakana um kynferðisbrot. Þetta kemur fram á vef DV.
Borið hefur hátt á umræðum um meint kynferðisbrot Auðuns á samfélagsmiðlum síðastliðna daga og hafa ásakanirnar orðið til þess að Auður mun ekki koma fram á tónleikum Bubba í komandi viku eða á sviði Þjóðleikhússins í uppsetningu Rómeó og Júlíu næsta haust.
Taka hlé
Þá hafa útvarpsstöðvarnar Rás 2, Fm957, Bylgja og K100 allar ákveðið að taka tónlist Auðar úr almennri spilun.
Matthías Már Magnússon, tónlistarstjóri Rásar 2, gekk úr skugga um að engin lög Auðar væru á spilunarlistum stöðvarinnar fyrr í vikunni. Rikki G, dagskrárstjóri FM957, sagði í samtali við DV að tekin hefði verið sameiginleg ákvörðun um að gera hlé á spilun tónlistarinnar á meðan mál Auðar eru í vinnslu.
Ívar Guðmundsson, dagskrárstjóri Bylgjunnar, og Sigurður Þorri Gunnarsson, dagskrárstjóri K100, tóku í sama streng og sögðu tónlist Auðs hafa verið tekna úr umferð í bili.
Afsakanir
Auðunn sendi frá sér yfirlýsingu á mánudaginn þar sem hann baðst afsökunar og kvaðst hafa gengið yfir mörk. Tónlistarmaðurinn þvertók þó fyrir flökkusögur um alvarleg afbrot.
Í kjölfar afsökunarbeiðninnar stigu þrjár konur fram í fyrsta skipti og lýstu kynferðislegu ofbeldi af hálfu Auðuns. Tvær þeirra sögðu afsökunarbeiðnina hafa verið „eins og blauta tusku í andlitið“ þar sem markmiðið hafi ekki verið að taka ábyrgð heldur að bjarga eigin skinni.