Hnífs­dælingurinn orð­heppni, Bragi Valdimar Skúla­son, segir Rúnar heitinn Júlíus­son, varla hafa hætt að hrista hausinn þegar hljóm­sveitin Bagga­lútur byrjaði að traka upp sína fyrstu jóla­plötu í hljóð­veri Geim­steins suður með sjó þegar nokkur ár voru liðin af nýrri öld. Rokk­stjarnan hafi ein­fald­lega verið gapandi yfir laga­valinu, enda banda­rísk sveita­lög að verða að ís­lenskum jóla­lögum í með­ferðum grínsveitarinnar sem hafði ó­spart gaman af því að klæða ó­lík­legustu tón­smíðar utan úr heimi í jóla­fötin, Rúnari tik stórrar undrunar.

Bragi Valdimar er gestur Sig­mundar Ernis í nýjasta þættinum af Manna­máli sem sýndur var í gærkvöldi og verður endur­sýndur á sunnudagskvöld – og gerir þar ó­spart grín að sjálfum sér, þunga­rokkaranum úr Hnífs­dal sem kom eins og hver annar álfur út úr hól suður í hlíðar MH, síð­hærður niður á bak og varð að gjöra svo vel að skipta um tón­listar­smekk með snatri.

Og ekki vantar Bagga­lúts­sögurnar í þættinum með þessum nýjasta hand­hafa Jónasarins á Degi ís­lenskrar tungu, en hrapal­legust þeirra er ferðin til Péturs­borgar um árið þegar kappinn æltlaði að stytta sér leið yfir girðingu, vel slompaður af rúss­neskum vodka – og ef til vill í full miklum mæli – en af­leiðingin var viku­inn­lögn á rúss­neskan spítala sem hann hefði, svona fyrir­fram, alveg getað af­þakkað.

Lýsinguna á hrak­förunum má sjá hér að neðan: