Tómas Tómasson, veitingamaður og nýr þingmaður Flokks fólksins, segir að góðlátlegur brandari sem hann lét falla í þingmannaskólanum um hvað hann hygðist gera að loknu kjörtímabilinu, hljóti að hafa leitt til misskilnings um að hann ætli sér ekki að stunda þingstörf sín af fullu kappi.

Eftir þingmannaskólann kvisaðist út að Tómas hygðist opna svokallaðan All day Breakfast stað. Einhverjir í hópi nýrra samþingmanna Tómasar skildu það sem svo að hann ætlaði sér að opna nýjan veitingastað samfara þingmennskunni. Spurningar vöknuðu í þingliðinu um hvort Tómas liti svo á að hann gæti stundað þingmennskuna í hjáverkum. Fylgdi sögunni að Tómas hefði sérstaklega spurt um heimildir til fjarvista á Alþingi.

Sagði bara eitthvað

„Nei, nei, nei, þetta er algjör misskilningur. Ég var spurður hvað ég ætlaði að gera að fjórum árum liðnum þegar kjörtímabilinu lyki. Þá verð ég 76 ára. Ég sló fram góðlátlegum brandara um að þá myndi ég opna svona All day Breakfast stað,“ segir Tómas og hlær við. „Ég sagði þetta bara til að segja eitthvað.“

Tómas, oft kenndur við Hamborgarabúlluna, virtist pollrólegur yfir sögunum, nú þegar hann er orðinn opinber persóna.

„Það er bara gaman að fólk skuli nenna að tala um mig.“