Leiðsögumaðurinn Tomaz Þór Veruson hefur gengist við ásökunum um ofbeldi gegn tveimur konum. Fyrrverandi kærasta Tomazar sagði fyrst frá málinu í Facebook-hópnum Fjallastelpur.
Mbl greinir frá því að í lokaðri færslu á Facebook-síðu sinni gangist Tómaz Þór Veruson við ásökunum um ofbeldi sem á hann hafa verið bornar síðustu daga, af tveimur fyrrverandi kærustum. Önnur konan er Vilborg Arna Gissurardóttir pólfari.
Tomaz skrifar: „Á þessum tíma var ég af ýmsum ástæðum á vondum stað andlega sem rekja má til áfalla í æsku. Það afsakar þó á engan hátt framkomu mína í garð þeirra sem lýst hafa vanlíðan sinni í erfiðu sambandi við mig. Á því tek ég fulla ábyrgð. Ég lét vanlíðan mína bitna á öðrum í stað þess að leita mér aðstoðar,“ skrifar hann.
Tomaz segist hafa leitað sér aðstoðar hjá fagfólki síðustu þrjú ár.
„Ég hef beðið þolendur mínar afsökunar, bæði áður og eftir að samböndum og öllum samskiptum lauk og geri það hér með aftur,“ skrifar Tomaz.
Hann biður einnig starfsfólk og viðskiptavini útivistarfélagsins Af stað afsökunar á óþægindum vegna málsins.