Tómas Andrés Tómas­son, betur þekktur sem Tommi er gestur nýjasta þáttar hlað­varpsins Karl­mennskan í um­sjá Þor­steins V. Einars­sonar . Tommi er nýr þing­maður Flokks fólksins og elsti ný­liðinn til að setjast á þing, 72 ára gamall.

Þýðir ekki að slá hausnum við stein

Í hlað­varpinu ræddi hann meðal annars að­draganda Al­þingis­kosninganna 25. septem­ber og á­herslu­mál sín. Þar deilir hann einnig af­stöðu sinni til fjöl­breyti­leika kynja og #met­oo.

„Málið er að heimurinn er alltaf að breytast og það þýðir ekkert að slá hausnum við stein, maður verður bara að sætta sig við það og taka þátt í því, ef maður ekki gerir það þá verður maður bara aftur úr“, sagði Tommi.

Nýir þing­menn Flokks fólksins, Jakob Frí­mann Magnús­son og Tómas.
Fréttablaðið/Valli

„Það eru ýmsir hlutir sem við­gengust hérna áður fyrr sem raun­veru­lega koma upp á yfir­borðið núna að eru bara ekkert sjálf­sagðir...konur eiga alveg fullan rétt á því að vera bara eins og þær eru án þess að eiga á hættu á ein­hverju ó­sann­gjörnu á­reiti.“

Tommi ræddi einnig um skil­greiningu karl­mennskunnar og hafði þetta að segja: „Ég veit ekki hvað karl­mennska er raun­veru­lega. Ég held að þetta snýst allt um til­finningar maður og það eru bara gervi­kallar sem gráta ekki sko af því að þeir eru svo miklir karlar.“

Hér má hlusta á hlað­varpið Karl­mennskan þar sem rætt er við Tomma.