Læknirinn Tómas Guðbjartsson birtir á Facebook-síðu sinni mynd af búðarhillum með vökva í rafrettur og segir augljóst á markaðssetningunni að þeim sé beint að ungmennum. „Ég ætla að hætta mér inn í umræðuna um rafsígarettur,“ segir hann.

Hann bendir á að fjórðungur framhaldsskólanema noti rafrettur daglega og spyr hvort það sé í lagi. „  Hversu mörg af þessum ungmennum munu ánetjast nikótíni og byrja að reykja síðar á ævinni? Ég veit að margir hafa náð að hætta að reykja með rafrettum - sem er jákvætt - en það réttlætir ekki svona markaðssetningu.“

Tómas segir að það sé ánægjulegt að aðeins 4 prósent framhaldsskólanema reyki sígarettur, en a það þýði ekkert að segja honum að það sé rafrettum að þakka. „Sú jákvæða þróun hófst áður en rafrettur tröllriðu markaðnum.“

Fjölmargir hafa lagt orð í belg en færslunni hefur verið deilt 60 sinnum. Flestir, framan af, eru sammála lækninum og telja ábendinguna þarfa.

Aðsópsmesta athugasemdin er frá Guðmundi Karli Snæbjörnssyni lækni, og hörðum stuðningsmanni rafrettna. Hann bendir á að 18 ára aldurstakmark hafi alla tíð verið í búðum sem selja veipur. Það stoppi börn hins vegar ekki, ekki frekar en að þau geti náð sér í sígarettur. Hann segir að litadýrð í vöruúrvali séu engin vísbending um að vökvanum sé beint að börnum eða ungmennum. Það sama megi þá segja um skyr, jógúrt og flestar neysluvörur í nútíma samfélagi. „ Eða, varla er krafa þín að litur veipuvökvanna sé bara hafðir í einum ríkislit, eins og t.d. grágrænum skítalit eins og sum lönd hafa þegar innleitt á sígarettupakkana? Að það dragi úr ásókn í veipur, unglinga og fullorðinna.“

Eins og áður segir bendir Tómas á að fjórðungur framhaldsskólanema noti rafrettur daglega. Guðmundur Karl spyr hvort hann viti hversu margir þeirra hafi reykt áður, eða notað munntóbak. „Vissir þú að 65% 16 ára unglinga sem veipa reglulega voru að reykja áður?“ spyr hann kollega sinn.

Hann fullyrðir að í Bretlandi og Bandaríkjunum hafi aðeins eitt prósent þeirra sem nota rafrettur aldrei notað tóbak áður. Athugasemdina og þráðinn allan má lesa hér að neðan.