Ragnar Freyr Ingvars­­son, fyrr­verandi yfir­­­læknir Co­vid-göngu­­deildar Land­spítala, velti því upp í færslu á Face­book í dag hvort breytt staða í Co­vid-far­aldrinum vegna Ó­míkron-af­brigðisins gerði það að verkum að endur­skoða þyrfti nálgun stjórn­valda, sótt­varna­að­gerðir og sam­komu­tak­markanir.

Tómas Guð­bjarts­son hjarta­skurð­læknir á Land­spítala skrifar í grein á Vísi þar sem hann svarar vanga­veltum Ragnars Freys, veltir fyrir sér fram­gangi Þór­dísar Kol­brúnar Gylfa­dóttur Reyk­fjörð utan­ríkis­ráð­herra og fer yfir stöðuna á spítalanum. Fyrir­sögn hennar er „Róm brennur en ráð­herra spyr spurninga“.

Hann bendir á að Land­spítali hafi verið á neyðar­stigi síðan 28. desember og staðan verið þung fyrir það enda hafa Co­vid-smit verið gríðar­lega mörg í nokkurn tíma með til­heyrandi á­lagi á spítalann. Það sé ekki sér­ís­lenskt vanda­mál, sam­bæri­leg staða sé uppi í nánast öllum löndum í kringum okkur.

„Víða er erfitt að halda starf­semi gangandi innan veggja spítalans vegna upp­safnaðs á­lags á starfs­fólk og vaxandi fjar­veru þess sem rekja má til smita í sam­fé­laginu“, segir Tómas og allir þekki til fólks sem þurft hefur að fara í sótt­kví eða ein­angrun, þar er starfs­menn spítalans engin undan­tekning. Nú eru 138 starfs­menn í ein­angrun og 109 í sótt­kví.

Nú eru 138 starfs­­menn Land­spítala í ein­angrun og 109 í sótt­kví.
Fréttablaðið/Þorkell Þorkelsson

Tómas telur að sumir stjórn­mála­menn átti sig ekki al­menni­lega á því hver staðan er í raun og veru og vill af því til­efni leggja sitt að mörkum til að fræða þá um hana. Á flestum deildum séu einungis fram­kvæmdar bráða­að­gerðir og bið­listar aukist stöðugt. Ekki sé hægt að nýta flestar skurð­stofur vegna til­færslu á starfs­fólki og við­varandi skorts á gjör­gæslu­rýmum. Sjö eru á gjör­­gæslu með Co­vid-19 þar af tveir í öndunar­­vél.

„Unnið er sleitu­­laust að því að manna allar einingar. Mönnun CO­VID deilda og gjör­­gæslu­­deilda er stöðug á­skorun og er vinnu­­fram­lag stjórn­enda fjöl­margra eininga for­­dæma­­laust“, sagði í til­­­kynningu frá far­sóttar­nefnd Land­spítala í dag.

Sjúkra­tryggingar Ís­lands hafa undir­ritað sam­komu­lag við heil­brigðis­fyrir­tæki í einka­rekstri á borð við Klíníkina og Orku­húsið til að leggja spítalanum lið. Sömu­leiðis er Lands­björg komin til að­stoðar við yfir­setu sjúk­linga. „Þetta er því sann­kallað neyðar­á­stand“, segir Tómas og við­líka staða hafi aldrei verið uppi hér á landi áður.

Ekki sé þjóðin hætt að veikjast þrátt fyrir þungan róður á spítalanum segir hann og á­lagið á starfs­fólki sé gríðar­legt sem tekur á sig auka­vaktir til að manna vel á þriðja hundrað stöðu­gildi.

„Skoðana­skipti eru mikil­væg en það verður að teljast ein­kenni­legt að utan­ríkis­ráð­herra, einn af lykil­ráð­herrum ríkis­stjórnarinnar og vara­for­maður stærsta stjórn­mála­flokks landsins, sé sí­fellt að spyrja fremur al­mennra spurninga í fjöl­miðlum um að­gerðir stjórn­valda við far­aldrinum.“

Betra að spyrja á ríkis­stjórnar­fundum

Tómas segir orða­lag spurninga Þór­dísar Kol­brúnar oft og tíðum ekki hægt að túlka öðru­vísi en að hún telji þá nálgun sem Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir hafi fylgt byggi á öðru en mál­efna­legum sjónar­miðum og vísindum eins og staðan er hverju sinni. Hann spyr hver staðan væri hér á landi ef ekki hefði verið gripið til hertra að­gerða í nóvember.

„Heppi­legra væri að mínu mati að ráð­herra spyrji spurninga um að­gerðir á öðrum vett­vangi, t.d. á ríkiss­stjórnar­fundum. Þannig kæmust skila­boð ríkis­stjórnarinnar betur til skila gagn­vart lands­mönnum, um leið og stutt væri við bakið á heil­brigðis­ráð­herra, sem skiljan­lega getur ekki kaf­siglt þjóðar­sjúkra­húsið á sinni vakt.“

Best hafi reynst í bar­áttunni við Co­vid að freista þess að hamla út­breiðslu hennar áður en það fer úr böndunum með þeim af­leiðingum að grípa þarf til enn harðari að­gerða líkt og gert hefur verið í ná­granna­löndum.

„Heldur ein­hver að það hefði reynst far­sælt að láta til dæmis for­svars­menn ferða­þjónustunnar stýra sótt­varnar­að­gerðum hér á landi? Skiljan­lega tala þeir fyrir hags­munum sinnar starfs­greinar en ráð­herrar í ríkis­stjórn þurfa að sjá heildar­myndina og hafa hags­muni allra lands­manna að leiðar­ljósi.“

Tómas rifjar upp orð utan­ríkis­ráð­herra í viðtali við RÚV á föstu­daginn og segir þau illa tíma­sett og ó­heppi­leg en þar sagði hún: „Við erum að klára tvö ár af tíma­bili þar sem við tókum á­kveðin borgara­leg réttindi að láni og við ætlum að skila þeim aftur og það er alveg er allt í lagi að spyrja hve­nær sá tími er kominn“.

Þór­dís Kol­brún Gylfa­dóttir Reyk­fjörð gengur út af ríkis­stjórna­fundi 7. desember í fyrra.
Fréttablaðið/Eyþór Árnason

Hann segist geta full­vissað ráð­herra að við séum ekki kominn að þeim tíma­punkti og upp­lifun margra sem starfa á Land­spítalanum er að þeir séu í nokkurs konar „rústa­björgun.“ Allir séu orðnir þreyttir á á­standinu en ekkert annað sé í boði en sótt­varna­að­gerðir til að hefta út­breiðslu far­aldursins með til­heyrandi á­hrifum á heil­brigðis­kerfið.

„Við munum komast best í gegnum þennan far­aldur með sam­taka­mætti og mann­úð að leiðar­ljósi. Þangað til þurfum við út­hald og þraut­seigju og verðum að byggja á­kvarðanir á bestu þekkingu á hegðun veirunnar og stöðu þjóðar­sjúkra­hússins okkar á hverjum tíma. Að lokum tvennt. Gleymum ekki þeim sem eru al­var­lega veikir af öðrum sjúk­dómum en CO­VID og þurfa að geta reitt sig á þjónustu Land­spítala, og göngum ekki svo nærri okkar sér­hæfða starfs­fólki að það velji sér annan starfs­vett­vang en Land­spítala vegna ó­mann­úð­legs á­lags.“