81 prósent þjóðarinnar hefur grunnþekkingu tölvunotkunar eða meira, samkvæmt nýjum tölum frá tölfræðistofnun Evrópusambandsins. Þetta er hæsta hlutfall í álfunni og Ísland eina landið með 80 prósent eða meira. Þar á eftir koma Finnar, Norðmenn og Hollendingar sem oft hafa verið nefndir sem tæknivæddasta þjóð heims.

Meðaltal Evrópusambandsins er rétt rúmlega helmingur, 54 prósent, og í Búlgaríu og Rúmeníu hefur minna en þriðjungur grunnþekkingu á tölvum.

Tölvuþekking er töluvert meiri á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni, 84 prósent á móti 73. Munur milli innfæddra Íslendinga og innflytjenda er hins vegar aðeins 1 prósent. Kynjamunurinn er aðeins 2 prósent körlum í vil.

Yngra fólk hefur hins vegar umtalsvert meiri tölvuþekkingu en það eldra. 91 prósent 16 til 24 ára hefur að minnsta kosti grunnþekkingu en í aldurshópnum 65 til 74 hafa hins vegar aðeins 57 prósent hana.