Tölvuárás var gerð á verslanir Bauhaus á Norðurlöndunum um helgina og var Bauhaus á Íslandi meðal fórnarlamba tölvuþrjótanna.

„Þetta þýðir að tölvukerfi fyrirtækisins liggur niðri,“ segir í tilkynningu frá Ásgeiri Bachmann, framkvæmdastjóra Bauhaus á Íslandi.

„Árásin veldur ýmsum vandræðum þegar kemur að þjónustu við viðskiptavini okkar, við biðjum um að því sé sýndur skilningur. Sem stendur liggur aðalsímkerfið okkar niðri,“ segir Ásgeir og hvetur viðskiptavini til að hafa samband á Facebook.

Þrátt fyrir takmarkanir vegna árásarinnar verður vöruhúsið Bauhaus opið en ekki er hægt að gera eða sækja sérpantanir, bóka kerru, setja í reikning eða fá endurgreidda skilavöru.

„Þökk sé framlagi og þrautseigju starfsfólks höfum við getað haldið vöruhúsinu opnu frá því að árásin átti sér stað á föstudag og munum gera það áfram, þrátt fyrir þær takmarkanir og áskoranir sem árásin veldur.“