Tölu­verður sjó­gangur var í Garði á Suður­nesjum í morgun en rýma þurfti alla vega eitt hús þar sem sjór var farinn að flæða inn í kjallara hússins. Að sögn Ingólfs E. Sigur­jóns­sonar, formanns Björgunar­sveitarinnar Ægis, er veðrið nú að­eins farið að ganga niður.

„Það er alla­vega tölu­vert vatn inni í húsinu þannig það segir sig sjálft að það eru ein­hver tjón,“ segir Ingólfur í sam­tali við Frétta­blaðið en húsið, sem er við Gerða­veg í Garðinum, liggur við ströndina. Að því er kemur fram í frétt Vísis voru mæðgur í kjallaranum þegar fór að flæða en þær eru nú komnar í öruggt skjól.

Björgunar­sveitar­menn hjálpuðu mæðgunum við það að komast úr kjallaranum og fóru þær í kjöl­farið til vina og vanda­manna. „Vissu­lega getur maður gefið sér það að þeim hafi brugðið, maður vill ekki sjá húsið sitt svona,“ segir Ingólfur um við­brögð mæðgnanna við þessari ó­þægi­legu lífs­reynslu.

Sjór umlykur húsin

Þrátt fyrir sjó­ganginn segir Ingólfur að til­tölu­lega ró­legt hafi verið hjá björgunar­sveitinni í morgun. „Við höfum mikið verið að að­stoða sveitirnar í ná­granna­bæjar­fé­lögum og það hafa verið nokkur verk­efni hérna í Garðinum,“ segir Ingólfur en hann segir stærsta verk­efnið hafa verið þegar sjórinn flæddi yfir varnar­garðana.

Vel sést að sjórinn umlykur hús og fyrirtæki í Garði.

„Við komum bara að rýmingu í þessu eina húsi en við höfum verið að kíkja á fleiri staði,“ segir Ingólfur en bætir við að þeir hafi einnig verið kallaðir út á annan stað. „Það eru samt engu að síður fleiri hús þarna, sér­stak­lega fyrir­tæki, en okkur hefur ekki borist neitt varðandi þau. Við sjáum það bara að það er sjór sem um­lykur þau.“

Sam­kvæmt upp­lýsingum frá lög­reglunni á Suður­nesjum hefur tals­vert foktjón verið í um­dæminu en ekki er búið að meta hversu mikið tjón varð þar sem sjórinn flæddi í húsið. „Við erum ekki með neinar upp­lýsingar um tjón þarna en við vitum að það hefur verið tals­vert tjón,“ segir Sigur­bergur Theo­dórs­son, aðal­varð­stjóri hjá lög­reglunni á Suður­nesjum, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sjógangurinn hefur valdið töluverðu tjóni.