Alls greindust 24 ný smit kórónaveirunnar sem veldur sjúkdóminum COVID-19 síðastliðinn sólarhring og eru greind smit því orðin 1.586 talsins. Færri smit hafa ekki greinst á einum sólarhring frá 22. mars síðastliðinn þegar 22 smit greindust.

Rúmlega ellefu hundrað sýni voru tekin í gær, þar af 877 hjá sýkla- og veirufræðideild Landspítala og 235 hjá Íslenskri erfðagreiningu. Af þeim sýnum sem reyndust jákvæð voru 23 á Landspítala og eitt hjá Íslenskri erfðagreiningu. Hátt í 29 þúsund sýni hafa nú verið tekin.

Allar helstu upplýsingar um smit má finna á covid.is.
Skjáskot/covid.is

Af þeim sem greindust voru 71 prósent nú þegar í sóttkví en um 4400 manns eru nú í sóttkví hér á landi. 559 manns hafa náð bata eftir að hafa smitast en sex hafa látist af völdum sjúkdómsins, fjórir á Landspítala, einn á Húsavík og einn á Bolungarvík.

39 manns hafa verið lagðir inn á sjúkrahús vegna sjúkdómsins og eru tólf á gjörgæslu.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Alma D. Möller landlæknir og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir munu fara nánar yfir stöðu mála með tilliti til COVID-19 hér á landi á upplýsingafundi almannavarna klukkan 14:00 en auk þeirra verður Sigþrúður Guðmundsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins, gestur fundarins.