Ingunn Lára Kristjánsdóttir
ingunnlara@frettabladid.is
Laugardagur 24. október 2020
14.00 GMT

Ráð­herra, kyn­fræðingur og fyrir­lesari setjast niður með blaða­manni til að ræða um kyn­líf, klám og kyn­sjúk­dóma. Til­efnið er að Lilja D. Al­freðs­dóttir mennta- og menningar­mála­ráð­herra stefnir á alls­herjar út­tekt á kyn­fræðslu í grunn- og fram­halds­skólum um allt land á­samt Sól­borgu Guð­brands­dóttur fyrir­lesara og Sig­ríði Dögg Arnar­dóttur kyn­fræðingi.


Sól­borg og Sigga Dögg verða hluti af starfs­hópi sem mun að öllum líkindum hefja störf í byrjun næsta mánaðar til að flýta um­bótum í kyn­fræðslu­málum.

Forboðna blaðsíðan í líffræðibókinni

Konurnar þrjár ræða málin af miklum eld­móði og rifja upp fyrsta kyn­fræðslu­tímann í grunn­skóla. Ráð­herrann hugsar hlýtt til líf­fræði­kennara síns sem var settur í skrýtna stöðu að byrja að kenna krökkunum kyn­fræðslu.


„Ég man í hvaða stofu ég var, hvar ég sat og hvernig veðrið var. Mér fannst þetta rosa­lega ó­þægi­legt og ég skynjaði að kennaranum fannst þetta líka ó­þægi­legt. Þetta var yndis­legur kennari en hann var greini­lega settur í þessa stöðu sem var ó­þægi­leg. En þetta þarf ekki að vera svona,“ segir Lilja um sinn fyrsta kyn­fræðslu­tíma í grunn­skóla.


Sigga Dögg segist kannast við þessa til­finningu. „Ég fékk enga kyn­fræðslu fyrr en ég flutti úr Kefla­vík í bæinn. Ég man að líf­fræði­kennarinn hitti okkur einn daginn eld­snemma, slökkti ljósin, setti glærurnar á skjá­varpann og sýndi okkur alla flóruna af sýktum kyn­færum. Við höfðum aldrei séð svona áður og vorum hálf vönkuð að byrja daginn á að skoða myndir af á­blástri og grefti. Það var talað af svo mikilli skömm, eins og kyn­sjúk­dómur væri bara dauða­dómur. Það var ekkert fal­legt við þessa kyn­fræðslu, ekkert um að læra á líkamann, bara hræðslu-taktík og skömm,“ segir Sigga Dögg.

„Eigum við þá ekki að fjalla um eitthvað sem er óþægilegt?“ spyr Sólborg um fyrirkomulag kynfræðslu.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Hún og Sól­borg eiga báðar rætur sínar að rekja til Kefla­víkur og gengu báðar í Holta­skóla. Sól­borg segir reynslu sína hafa verið svipaða en hún og sam­nem­endur hennar hafi beðið með eftir­væntingu að fá loksins að skoða hina for­boðnu blað­síðu í líf­fræði­bókinni.

„En þegar það kom að henni þá var allt svo ó­þægi­legt. Maður heyrði að kyn­líf væri vont fyrir okkur stelpurnar og að við ættum að þrauka í gegnum það þangað til að það hættir að vera vont. Ég myndi bara verða ó­létt eða fá kyn­sjúk­dóm og að allt væri hræði­legt. Ég er svo þakk­lát að hafa seinna fengið góðan um­sjónar­kennara í níunda bekk sem kom með hug­myndina af Fá­vita-Insta­gramminu,“ segir Sól­borg.


„Mamma, hvað er klám?“


Kynfræðsla bak við luktar dyr

Ungt fólk hefur lengi kallað eftir meiri og fjöl­breyttari kyn­fræðslu en boðið hefur verið upp á í skólum landsins hingað til. Að sögn Siggu Daggar og Sól­borgar virðist gæði kyn­fræðslu ráðast að miklu leyti af á­huga kennara og skóla­yfir­valda hvers skóla.

Mikill munur er til dæmis á fjölda kyn­fræðslu­tíma eftir sveitar­fé­lögum og eru Sigga Dögg og Sól­borg sam­mála um að Akur­eyrar­bær standi sig best en að skólar á Reykja­nesi megi gera betur. Þær segja vanda­málið ekki vera að unga fólkið sé ekki til­búið til að hlusta heldur að full­orðið fólk sé að koma í veg fyrir fræðsluna.

„Gestafyrirlesarar eiga ekki að sjá um grunnkennslu barna.“

„Sumir skóla­stjórar eða for­eldrar vilja ekki að ég sé að kenna börnum þrátt fyrir að börnin óski sjálf eftir fyrir­lestrum. Ég hef verið bókuð um kvöld í sam­komu­sal fyrir utan skóla, nánast bak við lyktar dyr, vegna þess að á­kveðinn skóla­stjóri setti þvert bann á slíka kyn­fræðslu. For­eldra­fé­lög hafa látið mig vita af þessu og þá spyr ég: Eru þetta börn ykkar eða börn skóla­stjórans?“

Þörf er á kerfis­breytingu en ekki á­taks­verk­efni. Sam­mælast þær um að öll börn og allir ung­lingar ættu að geta spurt spurninga um klám, kyn­ferði og mörk í öruggu rými hjá sér­fræðingum. Annars verður inter­netið kennarinn.

„Ég upp­lifi það líka að börnin eru ekki búin að fá grunninn og að ég sé að segja þeim margt nýtt,“ segir Sól­borg og Sigga Dögg tekur undir.

„Ein­mitt. Gesta­fyrir­lesarar eiga ekki að sjá um grunn­kennslu barna. Það er eitt­hvað mein­gallað við kerfið þegar krakkar koma til mín og spyrja „ Hvaðan kemur barnið?“ Þau eiga að vita það.“

Sólborg segir allt of seint að byrja að kenna kynfræðslu við 11 ára aldur.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

„Hafið þið kíkt þangað niður?“

Eftir að hafa heyrt lýsingar Siggu Daggar og Sól­borgar segir ráð­herrann að margt megi gera betur. Hún vill bæta alla fræðslu al­mennt og er búin að eyrna­merkja fjár­muni í það. Hún hefur miklar væntingar til starfs­hópsins og leggur á­herslu að vinnan gangi hratt og örugg­lega fyrir sig en fyrst þurfi að fara í út­tekt.

„Foreldrafélagið var óánægt með að ég hafi svarað spurningum nemenda um endaþarmsmök.“

„Hvað er verið að kenna? Hvert er náms­efnið? Hvernig þetta hefur verið að þróast á öðrum Norður­löndum? Við þurfum ekki að finna upp á hjólið heldur að skoða það sem er verið að gera vel. Við erum með allt formið, þetta er í aðal­nám­skrá, en það þarf að fylla betur upp í formið þannig að við séum sátt við það. Svo þurfum við að hugsa um aldurs­hópa. Erum við kannski að byrja kyn­fræðslu of seint?“ veltir ráð­herrann upp.

Sól­borg segir allt of seint að byrja að kenna kyn­fræðslu við 11 ára aldur. „Þegar ég held fyrir­lestra fyrir 11 og 12 ára börn þá vita þau ná­kvæm­lega hvað ég er að tala um þegar ég nefni kyn­ferðis­lega á­reitni og of­beldi á netinu.“

Sigga Dögg segir nauðsynlegt að börn fái heiðarleg svör í öruggu rými: „Það er svo mikilvægt að börn fái að spyrja spurninga og að þau læri líka að setja sér mörk.“
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

„Þetta á að snúast um að byggja okkar unga fólk upp. Þetta á ekki að vera eins og Sigga og Sól­borg eru að lýsa. Minn líf­fræði­kennari var greini­lega mun betri en kannski aðrir,“ segir Lilja og hlær.

Sigga Dögg svarar um hæl. „Ég held að minn kennari hafi reynt að gera vel. Hún hafði bara tak­markað efni á milli handanna með ekkert rými fyrir um­ræður eða eftir­fylgni. Við stelpurnar í bekknum hittumst eftir tímann og ég spurði: „Hafið þið kíkt þangað niður?“

Við höfðum aldrei lært að skoða líkamann og að þykja vænt um hann. Engin hafði sagt okkur að það væri ekkert til að skammast sín fyrir og ekkert til að vera hræddar við. Það er svo mikil­vægt að börn fái að spyrja spurninga og að þau læri líka að setja sér mörk. Ef þau vilja ekki tala um eitt­hvað þá mega þau segja nei.“

Lilja tekur undir með Siggu Dögg. „Þetta er eitt það mikil­vægasta í lífinu: að setja sér mörk. Það er oft verið að kenna ungu fólki og sér­stak­lega ungum konum að segja alltaf já. En þú ræðir því og stundum getur nei-ið, að gera eitt­hvað ekki, verið hin besta breytni.“

Lilja segir foreldra í dag vera að ala upp allt aðra kynslóð barna en áður: „Það er nóg til af öllu á veraldarvefnum og við þurfum kenna börnum okkar að gagnrýna og meta upplýsingar.“
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

Óþægilegu spurningarnar

Sól­borg segir á­kveðinn mis­skilning að með aukinni kyn­fræðslu fari ung­lingar að stunda kyn­líf fyrr, verði stjórn­lausir og fari sér að voða. Það sé á­kveðin hræðslu-taktík.

„Ég var einu sinni af­bókuð vegna þess að for­eldra­fé­lagið var ó­á­nægt með að ég hafi svarað spurningum nem­enda um enda­þarms­mök. Ég bið alltaf nem­endur um að senda mér spurningar nafn­laust og ég geri mitt besta til að svara þeim öllum al­gjör­lega for­dæma­laust svo að þau geti tekið með­vitaða á­kvörðun um hvað þau vilji og vilji ekki,“ segir Sól­borg.

Ráð­herrann hristir höfuðið og segir: „Það ætti nú að fagna því að verið sé að spyrja um þetta.“ Sigga Dögg tekur undir og Sól­borg heldur á­fram:

„Það er greini­legt að þau eru með pælingar. Eigum við þá ekki að fjalla um eitt­hvað sem er ó­þægi­legt? Ég get ekki stjórnað kyn­lífi annarra og ég get ekki á­kveðið hvað er best fyrir aðra. Mér finnst skipta málið, að ef við ætlum að kenna kyn­fræðslu þá verðum við að gera ráð fyrir að fólk sé alls konar. Annars getum við allt eins sleppt þessu.“

Sigga Dögg og Sólborg segjast oft þurfa að byrja frá grunni í fyrirlestrum sínum vegna skorts á almennri kynfræðslu.

Klám er ekki kennarinn

Lilja segir að það sem vakir fyrir henni sem mennta­mála­ráð­herra sé að vegna þeirra tækni­fram­fara sem átt hafi sér stað, þá er að­gengi að öllu efni allt annað í dag. Því séu for­eldrar í dag að ala upp allt aðra kyn­slóð en áður.

„Það er nóg til af öllu á veraldar­vefnum og við þurfum kenna börnum okkar að gagn­rýna og meta upp­lýsingar og átta sig á því hvað er í lagi og sam­ræmist þeirra sið­ferðis­mörkum og að það sé ekki veitt enda­laust að­gengi að því í gegnum tæknina. Þess vegna var ég svo á­nægð að fá flóð upp­lýsinga og á­bendinga inn á net­fangið mitt—“

Sól­borg út­skýrir að hún hafi hvatt fólk til að senda yfir­lýsingu á mennta­mála­ráð­herra um að þau vildu fá aukna kyn­fræðslu í grunn­skóla. „Og þetta voru ekki eitt eða tvö skila­boð,“ segir Sól­borg með stríðnis­glotti.

„Nei, þetta voru dá­lítið mörg skila­boð,“ segir Lilja og brosir. „Ég svaraði nokkrum því ég var í stuði en gat engan veginn svarað öllum. En ég fagna þessu mikið, sér­stak­lega í ljósi þess að mikil þörf er á breytingum vegna tækni­fram­fara.“

„Ef þú hefur þekkingu, þá hefurðu hugrekki til þess að taka réttar ákvarðanir,“ segir Lilja.
Fréttablaðið/Stefán Karlsson

„Þú getur ekki talað um kynlíf eða kynfræðslu á tveimur klukkustundum og búið.“


Sigga minnist þess þegar sjö ára sonur hennar og vinir hans spurðu hana hvað klám væri.

„Drengurinn minn kom heim eftir skólann með nokkrum vinum sínum og við settumst saman í eld­húsinu og ég gerði handa þeim grillaðar sam­lokur og þá spyr hann „Mamma, hvað er klám? Ein­hverjir strákar í fimmta bekk voru að tala um klám.“ og svo sátu þeir allir að dýfa sam­lokunum sínum í tómat­sósu og ég bara: „Ókei, nú ræðum við það.“ Og við gerðum það al­gjör­lega blygðunar­laust og án þess að tala um kyn­líf,“ út­skýrir hún.

„Því klám tengist ekkert kyn­lífi, þeir vita ekki hvað það er, þeir hafa ekki þessa skil­greiningu og þurfa hana ekki. Ég út­skýrði að klám væri fyrir full­orðið fólk, það sé bannað innan 18 og að enginn ætti að vera að sýna þeim það. Sumum finnist þetta ó­geðs­legt, að þarna sé nakið fólk. Strákarnir bara: „oj!“ En það er bara alls konar dót á netinu, sem getur verið ó­geðs­legt, og þeim gæti liðið illa við að horfa þetta. Og það er allt í lagi að út­skýra það fyrir þeim án þess að tala um kyn­líf. Þetta er það sem maður vill gefa for­eldrum og þjóðinni, ein­hverja að­ferðir til að upp­ræta skömm og hræðslu. Leið til að svara börnum.“

„En það er bara alls konar dót á netinu, sem getur verið ógeðslegt, og þeim gæti liðið illa við að horfa þetta. Og það er allt í lagi að útskýra það fyrir þeim án þess að tala um kynlíf.“
Fréttablaðið/Getty images

„Ein­mitt,“ segir Lilja. „Börn þurfa þessa fræðslu sem þau eiga rétt á. Þannig taka þau betri og með­vitaðari á­kvarðanir í lífi sínu. Ef þú hefur þekkingu, þá hefurðu hug­rekki til þess að taka réttar á­kvarðanir.“

„Oft er líka full­orðið fólk búið að á­kveða hvað börnum finnst um hlutina. Stundum er gott að spyrja börn og ung­linga beint út hvað þeim finnst, hvað þeim líkar við og hvað ekki. Það þarf að hlusta á börn því þeim vantar svör,“ út­skýrir Sól­borg.

„Svo þarf fólk að hafa í huga,“ heldur Lilja á­fram. „Að því miður þá eru til börn sem hafa verið mis­notuð. Þetta er stærsti ótti allra for­eldra og byrja því flestir að ræða við börn út frá slíku. Að þau þurfi að passa sig á hinu og þessu, sem er alveg skiljan­legt því við viljum vernda börnin okkar, en það þýðir að inn­koma barna í kyn­fræðslu er ekki endi­lega upp­byggi­leg, til þess að styrkja sjálfs­mynd þeirra.“

Hvað er að kerfinu?

Kyn­fræðsla er mis­munandi eftir skólum, hugsan­lega vegna breytinga sem voru gerðar á aðal­nám­skrá árin 2011 og 2013 með á­herslu á vald­dreifingu. Aðal­nám­skráin var stytt, kaflinn um náttúru­greinar fór úr rúm­lega 100 blað­síðum niður í tíu. Þannig að hver og einn skóli hefur meira vald til að stjórna sinni kennslu og þar af leiðandi er mikið mis­ræmi á á­herslum milli skóla.

Dr. Haukur Ara­son, dósent í eðlis­fræði og náttúru­fræði­menntun hjá Há­skóla Ís­lands, segir að þrátt fyrir þetta sé kyn­fræðslu gefin ágæt skil í aðal­nám­skrá en skortur sé kröfum um fræðslu al­mennt.

„Við erum að undirbúa einstaklinga út í lífið, hvernig þau koma fram við sjálft sig og annað fólk“

„Nú­gildandi aðal­nám­skráin er frekar al­menn, kveður ekki skýrt á um við­fangs­efni og skilur mikið val eftir í höndum hvers skóla og kennara. Kennarar eru líka með tak­markaðan tíma til kennslu náttúru­vísinda og þá verður sumt út­undan, eins og hugsan­lega kyn­fræðsla eða önnur við­fangs­efni. Fræði­menn í kennslu­fræðum eru ekki allir sam­mála um hvort þessi nálgun aðal­nám­skrár hafi verið til góðs,“ segir Haukur.

Sigga segir spennandi hluti í gangi Hollandi og Finn­landi en þar er kyn­fræðsla kennd þvert á skóla­stigið. „Við höfum skoðað tvær nálganir sem önnur lönd hafa tekið; að þetta sé fléttað inn í önnur fög eða að þetta sé sér­náms­grein. Vís­bendingar benda til þess að það kemur vel út að flétta þetta inn í önnur fög.“

Sól­borg tekur í sama streng. „Þetta verður eðli­leg sam­fella og eðli­legri hluti af því sem við erum að tala um í til dæmis sam­fé­lags­fræði, líf­fræði eða jafn­vel dönsku.“ Hún bætir við:

„Það eru auð­vitað aðilar, hvort sem það eru for­eldrar, skóla­stjórn­endur eða kennarar, sem eru að standa sig ó­trú­lega vel innan skólanna og eru að nýta allar smugur sem þau geta fengið til að gera þetta vel. En kyn­fræðsla má ekki vera byggð á skoðunum eins skóla­stjórnanda eða eins for­eldra­fé­lags. Mér finnst alveg glatað að það sé verið að miða við að skóla­hjúkrunar­fræðingur komi einu sinni í heim­sókn í sjötta bekk og níunda bekk. Þú getur ekki talað um kyn­líf eða kyn­fræðslu á tveimur klukku­stundum og búið. Þetta þarf að vera mark­visst í gegnum alla skóla­gönguna. Við erum að undir­búa ein­stak­linga út í lífið, hvernig þau koma fram við sjálft sig og annað fólk,“ segir Sól­borg að lokum.

„Þú getur ekki talað um kynlíf eða kynfræðslu á tveimur klukkustundum og búið.“
Fréttablaðið/Getty images
Athugasemdir